Í leik Þórs og Selfoss fóru heimamenn vel af stað og strax á 6. mínútu fengu þeir dæmda vítaspyrnu. Á vítapunktinn fór Hreinn Hringsson sem skoraði af öryggi og kom heimamönnum yfir. Aðeins tveimur mínútum síðar fékk Einar Sigþórsson stungusendingu inn fyrir vörn gestanna frá Atla Sigurjónssyni og náði skoti á markið sem var varið en Ármann Pétur Ævarsson fylgdi vel á eftir og skallaði boltann í netið. Staðan orðinn 2-0 fyrir Þór og heimamenn í ansi góðum málum.
Selfyssingar voru þó ekki af baki dottnir. Á 22. mínútu leiksins fengu þeir dæmda aukaspyrnu á góðum stað, spyrnuna tók Henning Jónsson og hann skoraði glæsilega í bláhornið og minnkaði muninn fyrir gestina í 2-1. Það var svo á lokasekúndum fyrri hálfleiks að gestirnir náðu að jafna leikinn og það gerði Sigurður Guðlaugsson eftir að heimamenn stoppuðu hreinlega í vörninni og biðu eftir rangstöðudómi sem aldrei kom. Staðan í hálfleik 2-2.
Þórsarar byrjuðu seinni hálfleikinn af krafti og virtust ekki ætla að láta jöfnunarmarkið á sig fá. Það voru hins vegar gestirnir sem náðu næsta marki og það kom á 49. mínútu, Ásgeir Ásgeirsson komst þá inn í sendingu í vörn Þórs og þrumaði boltanum í fjærhornið og kom Selfyssingum yfir. Á 73. mínútu leiksins fékk Kristján Sigurólason beint rautt spjald fyrir brot á Ingólfi Þórarinssyni. Aðeins fimm mínútum síðar fékk Ingólfur sjálfur að líta rauða spjaldið og bæði lið því einum manni færri á lokamínútum leiksins. Þórsarar reyndu hvað þeir gátu til að jafna leikinn en allt kom fyrir ekki og lokatölur á Akureyrarvelli, 3-2 sigur Selfoss.