Það voru hinsvegar gestirnir sem áttu fyrsta færi leiksins og það kom á 16. mínútu þegar Fjarðabyggð átti góðan skalla að marki Þórs eftir fyrirgjöf inn í teig, en Björn Hákon Sveinsson í marki Þórs sýndi skjót viðbrögð og varði vel. Þremur mínútum síðar fengu heimamenn fínt færi þegar Jóhann Helgi Hannesson skallaði boltann rétt yfir mark gestanna eftir hornspyrnu.
Jóhann Helgi var svo aftur á ferðinni á 23. mínútu leiksins þegar hann slapp inn fyrir vörn gestanna eftir stungusendingu frá Hreini Hringssyni og skoraði með fínu skoti og heimamenn komnir yfir. Lið Fjarðabyggðar varð svo fyrir miklu áfalli á 36. mínútu þegar Fannar Árnason var rekinn af velli fyrir að hrinda einum leikmanni Þórs. Gestirnir því einum manni færri og einu marki undir þegar flautað var til hálfleiks.
Seinni hálfleikur leiksins var afar tíðindalítill framan af og fátt markvert sem gerðist. Heimamenn í Þór fóru þó að sækja í sig veðrið þegar líða tók á hálfleikinn og fengu nokkur ágætis færi til þess að bæta við marki. Atli Sigurjónsson var nálægt því að skora þegar tíu mínútur lifðu leiks er hann reyndi að vippa yfir markvörð gestanna fyrir utan teig, en skotið var naumlega varið. Tveimur mínútum síðar átti Hreinn Hringsson skot í stöngina af stuttu færi inn í teig.
Þegar komið var fram í uppbótartíma átti Hreinn Hringsson frábæra sendingu fyrir mark gestanna og Atli Sigurjónasson var mættur inn í teig en einn á móti auðu marki tókst Atla að skjóta boltanum í hliðarnetið. Á lokasekúndum leiksins fékk Jóhann Helgi Hannesson dauðafæri til þess að bæta við sínu öðru marki við í leiknum er hann fékk boltann inn í teig gestanna og var einn á auðum sjó en skot hans var slakt og beint á markvörð Fjarðabyggðar.
Lokatölur 1-0 sigur Þórs, sem enn hefur ekki tapað leik á Þórsvellinum. Að loknum 20 umferðum er Þór komið í 28 stig í deildinni og vermir sjötta sætið en KA hefur 29 stig í fimmta sæti deildarinnar.