Þórsarar tryggðu sér í gær Bikarmeistaratitilinn í 2. flokki karla með 1-0 sigri á KA eftir framlengdan leik.
Eftir stöðubaráttu í byrjun voru það Þórsarar sem tóku yfirhöndina og héldu boltanum betur innan síns liðs. Um miðbik hálfleiksins áttu þeir svo fast skot í slá eftir hornspyrnu en nær komust þeir ekki í fyrri hálfleik.
KA-menn komust meira inn í leikinn eftir sláarskot Þórsara og áttu nokkrar ágætis tilraunir en aldrei fór boltinn á markið. Þar á meðal átti Steinn Gunnarsson skot sem rétt sleikti utanverða stöngina á leið sinni framhjá.
Síðari hálfleikur var fjörugri en sá fyrri og voru það Þórsarar sem voru með yfirhöndina en skyndisóknir KA-manna voru hins vegar hættulegar.
Um miðbik síðari hálfleiksins áttu Þórsarar stórsókn þar sem KA-menn björguðu tvisvar á línu og einnig áttu Þórsarar stuttu síðar sláarskot.
Undir lokin komust KA-menn svo meira inn í leikinn og áttu nokkrar hættulegar tilraunir. Hættulegst þeirra var skot Almarrs Ormarssonar rétt framhjá úr aukaspyrnu.
Þar sem staðan var 0-0 eftir venjulegan leiktíma þurfti að framlengja leikinn. Í framlengingunni voru Þórsarar sterkari aðilinn og fór það svo að Einar Sigþórsson tryggði þeim sigurinn með glæsilegu marki þegar um 15 mínútur voru eftir.
Eftir mark Einars var leikurinn tíðindalítill og braust út mikill fögnuður meðal Þórsara þegar flautað var til leiksloka.