Þjónandi forysta með Bjartri framtíð

Hlynur Jónsson.
Hlynur Jónsson.

Við sem bjóðum okkur fram fyrir hönd Bjartar framtíðar viljum gera Akureyri að bestu mögulegu útgáfunni af sjálfri sér með því að nýta alla þá hæfileika og krafta sem hér finnast.  Við viljum gera það að meginverkefni að auka framleiðni í bæjarfélaginu öllum til hagsbóta.

 

Einlæg hlustun

Björt framtíð vill sjá innleiðingu hugmyndafræði þjónandi forystu innan stjórnkerfis Akureyrarbæjar.  Eitt af aðaleinkennum þjónandi forystu er getan til þess að hlusta af einlægni og áhuga á það sem aðrir hafa að segja, skoðanir þeirra, hugmyndir og viðhorf.  Áhuginn liggur fyrst og fremst í því að hugsa um velferð bæjarbúa en ekki um eigin völd eða hagsmuni. Auk þess að sýna traust og virðingu fyrir bæjarbúum leiðir þessi hlustun til þess að starfsmenn bæjarins og pólitískir fulltrúar átta sig betur á þörfum og hugmyndum bæjarbúa. 

 

Samtalið

Björt framtíð leggur höfuðáherslu á samræðupólitík og telur að samtalið sé mikilvægasta verkfærið sem bæjarfulltrúar og embættismenn hafa til þess að framfylgja stefnu sinni um þjónandi forystu. Við viljum leggja áherslu á það að sjá heildarmyndina og hafa yfirsýn, leita eftir hugmyndum og skoðunum bæjarbúa, bera virðingu fyrir skoðunum þeirra og finna lausnir í sameiningu. Við viljum vinna með íbúum bæjarins. Látum ekki ábendingar bæjarbúa um það sem betur má fara enda sem texta í fundargerð bæjarráðs heldur lifa á vef bæjarins þar sem framvinda málsins heldur áfram og hefur einhvern tilgang. Það sama má segja um íbúaþingin - þau eru ekki bara til spari á tyllidögum heldur ábending íbúa til bæjaryfirvalda um hvað betur mætti fara í bænum.  Nýtum tillögur íbúa með sýnilegum hætti en látum þær ekki enda sem skýrslu uppi í hillu.  Við viljum hlusta og framkvæma meira – tala minna. 

 

Rafræn stjórnsýsla

Skýr sýn á hugsjónina og sterk vitund um kjarna verkefnanna er nauðsynleg þegar kemur að rekstri bæjarins, að hafa getu til þess að rýna í framtíðina, hafa tilfinningu fyrir nútíðinni og hafa þekkingu á fortíðinni. Allt er undir til að vel takist að mæta framtíðinni. Setjum okkur skýr markmið og innleiðum enn frekar rafræn upplýsingakerfi og rafræna stjórnsýslu til að stuðla að skilvirkari vinnubrögðum og greiðari aðgangi almennings að upplýsingum og stofnunum bæjarins. Akureyri hefur fulla burði til þess að bera af á þessum sviðum, sameinumst öll um minni sóun á tíma, fé og orku í samskiptum okkar og bæjarins.

 

Ég býð krafta mína og áhuga fram fyrir hönd Bjartar framtíðar í minni fyrstu stjórnmálaþátttöku. Í 25 ár hef ég verið í eigin atvinnurekstri og gengið vel. Veitinga- og hótelrekstur krefst mikilla þjónustugæða. Við hjá Bjartri framtíð lítum á Akureyrabæ sem þjónustufyrirtæki sem á að veita bæjarbúum og öllum þeim sem bæinn sækja framúrskarandi þjónustu. Ef þú hefur sömu sýn á málin og við, þá er málið einfalt -  X við Æ.

 

Hlynur Jónsson skipar 4. Sæti framboðslista Bjartrar framtíðar á Akureyri

 

Nýjast