Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur dæmt 33 ára karlmann á Akureyri í sex mánaða fangelsi fyrir þjófnað. Ákærði braust inn í íbúðarhús í Glerárhverfi í ágúst í fyrra og stal þaðan ýmsum verðmætum, m.a. lestölvu, myndarvél, fartölvu, flakkara, skartgripum, tólf pennum, líkamsræktarkorti, sundkorti, þremur úrum, leðurjakka, tveimur beltum, skyrtu, þremur peysum, buxum, sokkum, gleraugum, tveimur AA rafhlöðum og tvennum stökum hönskum.
Þjófurinn lét það ekki duga og rændi einnig ýmiskonar pappírum og kvittunum, tveimur vegabréfum og tveimur DVD mynddiskum og einum geisladiski.
Fram kemur í dómi að ákærði hafi verið í annarlegu ástandi og lýsti yfir minnisleysi vegna fíkniefnaneyslu við yfirheyrslu hjá lögreglu. Ákærði á að baki langan sakaferil.