Þjófstartar jólunum með Thule-jólabjór

Jólabjór nýtur sívaxandi vinsælda hér á landi og hefur selst í auknu magni hvert ár. Í fyrra seldust 616 þúsund lítrar sem var 7,5% aukning frá árinu á undan. Ekki er ólíklegt að metið verði bætt aftur í ár í ljósi þess að Vífilfell, stærsti bjórframleiðandi landsins, hyggst hefja dreifingu á Thule-jólabjór í dag, mánuði fyrr en venjulega. Jólabjórinn er framleiddur í Víking ölgerð á Akureyri og er óhætt að fullyrða að farið sé að örla á talsverðri jólastemningu þar innandyra.
Hreiðar Þór Jónsson, markaðsstjóri bjórs hjá Vífilfelli, segir ástæðuna vera aukið vægi jólabjórs í bjórmenningu landans. Veðrið var ekki upp á marga fiska í sumar og í raun er búið að vera haust í nokkra mánuði. Við ákváðum þess vegna að þjófstarta jólunum og koma með jólabjórinn fyrr í ár. Enda eðlilegt að jólin komi snemma fyrst að haustið kom í júlí. Svo sjáum við líka bara að það er aukin eftirspurn og við þurfum að byrja að selja fyrr til að mæta þeirri eftirspurn. Samkvæmt reglum Vínbúðanna má ekki selja jólabjór þar fyrr en 15. nóvember og ekki lengur en til 6. janúar, á þrettánda degi jóla. Það er hins vegar ekkert sem bannar að við byrjum fyrr á veitingastöðum og í fríhöfninni.
Thule jólabjórinn fer á dælur og kæla á nokkrum tugum veitingahúsa og kráa til að byrja með og í næstu viku verður hann einnig fáanlegur í Fríhöfninni á Keflavíkurflugvelli. Þá styttist í að Víking jólabjórinn komi á markað, en hann er einn vinsælasti íslenski bjórinn um jólin. Bjórunnendur þurfa ekki að bíða jafn lengi og í fyrra eftir að hann komi á veitingastaði og í Fríhöfnina, en búist er við að það verði í lok mánaðarins.
Íslenskur bjór nú 65% af sölunni
Aldarfjórðungur er nú frá því að sala bjórs var leyfð hér á landi og voru erlendir bjórframleiðendur fyrirferðarmestir í vínbúðunum og á veitingastöðum til að byrja með. Á undanförnum árum hafa íslenskar bruggverksmiðjur hins vegar sótt mjög í sig veðrið og er staðan nú sú að um 65% af þeim bjórum sem seldir eru hér á landi eru íslenskir. Vífilfell er stærsti framleiðandi bjórs á Íslandi en þriðji hver bjór sem neytt er á Íslandi kemur úr verksmiðju fyrirtækisins, Víking ölgerð. Aukin áhersla á sérbjóra eins og jólabjór hefur enn aukið hlut íslenskra framleiðenda.