12. júní, 2007 - 09:39
Fréttir
Nokrir aðilar sem uppvísir urðu að þjófnaði og skemmdarverkum hafa nú nýverið verið dæmdir í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Hlutu þeir mislanga dóma, eða reyndar allt frá því að vera ekki gerð refsing og upp í átta mánaða fangelsi. Sá sem hlaut átta mánaða fangelsi braust inn á mörgum stöðum og stal ýmsum hlutum s.s. tölvum, skjávörpum og myndavél. Þá notaði hann greiðslukort í eigu Akureyrarbæjar í heimildarleysi og reyndi að nota það annars staðar og hann var oftar en einu sinni tekinn með fíkniefni. Honum var einnig gert að greiða Glerárskóla 368 þúsund krónur og Hótel Holti 10 þúsund auk sakarkostnaðar. Félagi hans sem tók þátt í sumum afbrotanna með honum var dæmdur í sex mánaða fangelsi skilorðsbundið til þriggja ára.- Kona sem stal 4 gullhringjum og armbandsúri úr klefa í sólbaðsstofu á Akureyri var dæmd í 4 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þá var dæmt í máli tveggja manna sem brutust inn í kjötvinnslu Norðlenska á Húsavík og stálu þar ýmsum hlutum. Öðrum þeirra var ekki gerð refsing þar sem innbrotið var framið áður en hann hlaut dóm fyrir önnur afbrot fyrr á árinu en hvað hinn varðar var ákvörðun um refsingu frestað í tvö ár haldi hann almennt skilorð.