Sjúkraliðar hafa boðað til verkfalls sem hefst þann 4. apríl n.k. ef ekki tekst að semja fyrir þann tíma. Um er að ræða sjúkraliða hjá sveitarfélögum sem ekki hafa samið við Sjúkraliðafélag Íslands. Samkvæmt Halldóri S. Guðmundssyni framkvæmdarstjóra Öldrunarheimilanna eru sjúkraliðar stór hluti starfsmanna Öldrunarheimila Akureyrar eða um þriðjungur.
“Ef af verður koma til framkvæmda svokallaðir undanþágulistar til að halda uppi lágmarksmönnun. Ljóst er að verkfall, ef til kemur, mun hafa áhrif á þjónustu ÖA og það bitnar á öldruðum notendum og íbúum sem og aðstandendum. Sem dæmi má gera ráð fyrir að einhverjar skerðingar eða samdráttur verði í skammtíma-/hvíldardvölum ef til verkfalls kemur. Vonir okkar eru eðlilega að samningsaðilum takist að semja, án verkfalls.” sagði Halldór S. Guðmundsson framkvæmdarstjóri Öldrunarheimila Akureyrar í samtali við Akureyri.net