„Þetta var rosalega skemmtileg upplifun“

Hildur og Birgir fagna bronsinu í tvíliðaleik ásamt Rannveigu og tveimur sérlegum aðstoðarmönnum.
Hildur og Birgir fagna bronsinu í tvíliðaleik ásamt Rannveigu og tveimur sérlegum aðstoðarmönnum.

Bocciadeild Völsungs átti fulltrúa á Heimsleikum Special Olympics sem fóru fram í Berlín dagana 17. – 25. júní síðastliðinn.Bronsið

Hildur Sigurgeirsdóttir 23 ára Húsavíkurmær var valin til að taka þátt og náði hún frábærum árangri og endaði með bronsverðlaun í báðum keppnisgreinum sínum, annars vegar í sínum riðli í kvennadeildinni og hins vegar í tvíliðakeppni í karlaflokki með Birgi Viðarssyni frá Íþróttafélaginu Suðra Selfossi. Íslenski hópurinn var alls um 100 manns, þar af 30 keppendur.

Rannveig Þórðardóttir var með Hildi í ferðinni en hún starfar í Vík íbúðakjarna á Húsavík þar sem Hildur er búsett og er jafnframt bocciaþjálfari hennar. Blaðamaður heimsótti þær stöllur á dögunum og hlýddi á ferðasögu þeirra.

Hildur er fædd og uppalin á Húsavík en auk bocciaíþróttarinnar hefur hún brennandi áhuga á skíðum. „Ég fer reglulega í Hlíðarfjall á Akureyri til að renna mér,“ segir Hildur og er fljót að bæta við að henni þyki skemmtilegast að fara hratt niður brekkurnar.

Vinabær heimsóttur

Rannveig segir að fyrsti áfangastaður ferðalagsins hafi verið í vinabæ Íslands á mótinu, bærinn Kempten í Þýskalandi. „Þarna fengum við höfðinglegar móttökur og var stjanað við okkur allan daginn,“ útskýrir Rannveig og Hildur tekur undir.

Skemmtilegast segir Hildur hafa verið ferðalag upp að Nebelhorn. „Þar fórum við 2224 m. hæð með kláfi, ég held að mér hafi fundist það skemmtilegast,“ segir hún og bætir við að hún hafi ekki verið vitund lofthrædd. Rannveig segir jafnframt að veðrið hafi verið dásamlegt og að vel hafi verið gert við þær með mat og drykk.

 Lagt af stað til Berlínar

Ferðalagið til Berlínar tók 10 tíma með rútu og viðurkennir Hildur að hafa verið orðin svolítið þreytt undir lokin en hafi verið fljót að gleyma því þegar komið var á hótelið í Berlín þar sem þær fengu æðislegan mat.

Á Bessastöðum

„Daginn eftir kíktum við á keppnissvæðið okkar og fengum að vita æfingatímann sem var á öðrum degi,“ segir Hildur og viðurkennir að það hafi verið öðruvísi að spila boccia í Þýskalandi miðað við heima á Húsavík. Notuð hafi verið trékúla sem er mun þyngri en boltarnir sem hún er vön. „En það var ekkert mál, ég var fljót að venjast því.“

Að lokinni æfingu var deginum eytt á bæjarrölti og kaffíhúsaheimsókn þar sem Hildur hitt pappa sinn, Sigurgeir Höskuldsson og systkini sín sem þá voru nýkomin til Berlínar til að fylgjast með bocciastjörnunni.

Opnunarhátíð leikanna segir Hildur að hafi verið svakaleg upplifun og þær hafi verið lengi að komast heim á eftir. „Við vorum komnar á hótelið um 2:30 og fórum beint í rúmið,“ segir Hildur.

 Keppnin hefst

Fyrsti keppnisdagurinn rann upp en þá voru leiknir eins konar prufuleikir, eða delegation. Þeir fara þannig fram að dómarar fylgjast með og meta getu og frammistöðu keppenda. Síðan er keppendum raðað í riðla eftir styrkleika í samræmi við þetta mat, svo getumunur verði ekki of mikill á milli mótherja. „Ég var líka fegin að það var keppt inni í höll, þar sem var loftræsting því það var rosalega heitt úti,“ rifjar Hildur upp.

 Í kastljósi fjölmiðla

Teymið á bak við sjónvarpsþættina „Með okkar augum“ var í Berlín að fylgjast með gangi mála og að sjálfsögðu var Hildur tekin í viðtal en þess má geta að einn af þáttarstjórnendunum, Elva Björg Gunnarsdóttir var herbergisfélagi Hildar. „Það var einn af hápunktum ferðarinnar að fá að kynnast svo mörgu skemmtilegu fólki,“ segir Hildur og ber herbergisfélaga sínum góða söguna. Þættirnir verða á dagskrá RÚV í haust og því eins gott að fylgjast vel með, því það má engin missa af viðtalinu við Hildi okkar.

 

Fyrsti alvöru keppnisdagur Hildar gekk vonum framar og vann hún tvo af þremur leikjum í sínum riðli. Hún fékk því að leika um bronsið daginn eftir og rúllaði því að sjálfsögðu upp. „Það var gaman að fá verðlaunapening,“ segir Hildur stolt en eins og áður segir átti hún eftir að vinna önnur bronsverðlaun á mótinu, ásamt Birgi félaga sínum.

Leið eins og kóngafólki

„Þetta var rosalega skemmtileg upplifun, Ólympíuþorpið var svakalega stórt en við fengum frábæra þjónustu og leið barasta eins og kóngafólki,“ segir Hildur og lætur fylgja með að hún hafi verið í skýjunum þegar haldið var heim á leið eftir frábært ferðalag.

Heiðruð á Bessastöðum

Heimferðin gekk vel en hópurinn fékk frábærar móttökur á Keflavíkurflugvelli. Ekki kom annað til greina en að gista eina nótt í Reykjavík þar sem daginn eftir beið þeirra heimboð á Bessastaði í boði forsetahjónanna. „Það var mjög sérstakt að fá að hitta forsetann,“ segir Hildur og bætir við að lokum að það hafi líka verið gott að komast loksins heim eftir 16 daga ferðalag.


Athugasemdir

Nýjast