Þetta símtal kann að vera hljóðritað

María Aðalsteinsdóttir.
María Aðalsteinsdóttir.

Undanfarið hef ég tekið eftir því að flest fyrirtæki sem ég hef haft samband við í síma taka upp samtöl eða láta allavega vita að það sé möguleiki. Þessi viðvörun glymur í símann hvort sem erindið er persónulegt eða vinnutengt. Þannig hringdi ég í símafyrirtæki til að spyrjast fyrir um netáskrift og áður en ég gat talað við nokkurn kom fram að símtalið gæti verið hljóðritað.

Skömmu áður hafði ég hringt í Ikea og það símtal var hugsanlega hljóðritað. Ég hringdi í stéttarfélag og það símtal var hljóðritað og sama gilti um símtal við Heilsugæsluna. Mér var svo allri lokið þegar ég hringdi í ágætt sorphirðufyrirtæki til að fá upplýsingar um flokkunar ruslafötur og þá glumdi í símann að símtalið yrði líklega hljóðritað. Ég veit að stofnanir eins og bankar hafa hljóðritað símtöl við viðskiptavini í mörg ár, líklega til að geta rakið þau ef rándýr mistök eru gerð. Trúlega getur það komið sé vel fyrir einhverja að hægt sé að finna út hver sagði hvað og við hvern og klukkan hvað, en fyrr má nú rota en dauðrota. Ég sé ekki hvað saklaust símtal við Ikea til að panta gardínustöng eða ramma fyrir 2999 kr. þarf að vera hljóðritað.

Veit persónuvernd um allar þessar upptökur? Það sem ég hef þó mestar áhyggjur af er ef einhver þarf einhvern tímann að hlusta á þó ekki nema væri brot af þessum símtölum. Það getur ekki verið skemmtileg vinna eða fjölbreytt. Ég sé fyrir mér þegar starfsmaður í Ikea hlustar í margar klukkustundir á símtöl til að finna út að Jón Jónsson pantaði þrjár ruslafötur en ekki tvær. Það væri líka spennandi að hlusta á þegar ein hver afpantar flokkunartunnu 2. september en hún var ekki sótt fyrr en 5 vikum seinna. Vissulega er leiðinlegt þegar einhver gerir mistök en kannski þarf ekki alltaf að finna sökudólg. Nú er ég að velta fyrir mér hvort fyrirtækin séu hugsanlega að verja sig fyrir dónaskap. Þannig gæti sljákkað í einhverjum sem hringir alveg bandóður út af mistökum t.d. ef hann fékk send rauð rúmföt en ekki gul. Kannski verður upptakan eða sá möguleiki að símtalið sé tekið upp til þess að fólk vandar sig frekar. Ef ástæðan er sú, þá er það sorglegt og okkur ekki til hróss.

Ég vona að fólk sem á erindi við fyrirtæki og stofnanir sé vanalega ekki svo dónalegt í síma að það þurfi að nota upptöku til að verja starfsfólk. Ef svo er þá þyrfti ef til vill að fara að hljóðrita fólk á fleiri stöðum til að venja það af ókurteisi. Það hefur alltaf pirrað mig óendanlega þegar einhver skammar ungling á kassa fyrir vöruverð eða að eitthvað sé ekki til. Ef fólk leiddi hugann að því þá er ekki líklegt að unglingurinn ráði nokkru um vöruúrval eða verð. Með því að skamma unglinginn sem afgreiðir er verið að skapa algerlega óverðskuldaða og óþarfa vanlíðan.

Spurning er hvort sá sem skammaðist myndi sleppa því ef hann vissi að hann væri hugsanlega hljóðritaður. Ekki það að ég mæli með því að allt sé tekið upp en það gæti vissulega verið fróðlegt fyrir dónalega karlinn og pirruðu konuna að heyra í sjálfum sér. Svo þarf auðvitað að huga að því hvort skammirnar skili einhverju fyrir þann sem skammaðist. Verður dagurinn betri eftir að hafa hellt sér yfir saklausan ungling á kassa? Verður sá sem skammaði betri maður á eftir og skemmtilegri þegar hann kemur heim? Ég held ekki. Nú er það þannig að í hita leiksins og í góðra vina hóp hef ég oft sagt eitthvað sem ég vildi ekki endilega að væri tekið upp. Reyndar gleymi ég mér oft og segi einhverja vitleysu sem ég vona að fari aldrei lengra.

Ekki væri gaman ef hægt væri að spila fyrir hvern sem er kjánalega tilraun til að vera fyndinn eða óheppilegt orðalag. Ég hef líka tekið eftir því að margskonar fyrirtæki reyna allt sem þau geta til að fá fólk til að nota ekki síma í erindi. Það er talið upp hvernig hægt sé að fá svör við algengum spurningum, hvernig hægt sé að hefja netspjall, velja vörur á vef og senda fyrirspurn á tölvupóstfang. Það er líka dregið úr manni með því að segja af og til að maður sé númer þrettán í röðinni og af og til er sagt frá því á meðan maður bíður þolimóður eftir að heyra í starfsmanni að hægt sé gera hitt og þetta til að forðast símtalið. Sum fyrirtæki spila líka misleiðinleg lög til að drepa niður stemminguna, en ég læt ekki bugast þó ég sé fullkomlega fær um að nota tæknina. Einhvervegin finnst mér best að tala við fólk, kannski vegna þess að ég hef gaman af fólki og mér finnst gaman að tala.

Ég skora á Þuríðir Lilju Rósenbergsdóttur, náms- og starfsráðgjafa í Naustaskóla að skrifa næsta pistil.

 


Nýjast