„Þetta er þungt högg fyrir samfélagið okkar“

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings. Mynd:epe úr safni
Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings. Mynd:epe úr safni

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings sagði í samtali við blaðamann Vikublaðsins að vinnslustöðvun Kísilvers PCC á Bakka væri mikið reiðarslag fyrir samfélagið allt.

„Þetta er þungt högg fyrir samfélagið okkar að fá þessar fréttir að það sé búið að segja upp tugum starfsmanna hjá einu af okkar mikilvægasta fyrirtæki í samfélaginu. Hugur okkar allra í sveitarstjórninni og íbúa sveitarfélagsins er hjá þeim fjölskyldum sem eru að fara glíma við erfiða tíma fram undan.

Sjá einnig: „Þetta er þungt högg fyrir samfélagið okkar“

Það verður þó að hafa í huga að það er verið að horfa á þetta sem tímabundið ástand. Það er gengið út frá því enda er verið að fara í fjárfestingu núna í viðhaldi og öðru á verksmiðjunni. Það eru engin áform um annað en að setja í gang aftur þegar markaðsaðstæður glæðast eitthvað.“

Þá segist Kristján vera bjartsýnn á að það gangi eftir að framleiðsla hefjist að nýju þegar markaðsaðstæður glæðist eitthvað. „Við áttum fund með forsvarsmönnum fyrirtækisins og eigendum PCC samsteypunnar. Það var auðvitað erfiður fundur en þó var hann engu að síður uppbyggilegur. Menn ætla að komast í gegn um þetta. Það liggur ekkert annað fyrir.“

Kristján fór ekki leynt með það að þessar fréttir séu reiðarslag fyrir starfsfólk og fjölskyldur þess en bætti við að það væri aðeins ein leið út úr svona áfalli og það væri áfram.


Nýjast