Þelamerkurskóli fær styrk frá Sparisjóði Norðlendinga

Í sumar hefur verið unnið að því að bæta íþróttasvæðið í kringum Þelamerkurskóla og hefur það gengið vonum framar. Sparisjóður Norðlendinga kom að þessum breytingum með myndarlegum styrk sem hefur nýst einstaklega vel og er nú svæðið fullklárað. Guðmundur Sigvaldason sveitarstjóri Hörgárbyggðar segir að stuðningur Sparisjóðs Norðlendinga við uppbyggingu íþróttastarfs í sveitunum kringum Þelamerkurskóla hafi mikla þýðingu fyrir svæðið, ekki síst í ljósi þess að mun tímafrekara og kostnaðarsamara sé fyrir börn og unglinga í dreifbýli en þau sem búa í þéttbýli að sækja afþreyingu og æfingar vegna lengri vegalengda. Sparisjóður Norðlendinga hefur í gegnum tíðina lagt sitt af mörkum til þess að bæta megi aðbúnað og lífsskilyrði íbúanna á starfssvæði sjóðsins. Örn Arnar Óskarsson sparisjóðsstjóri segir mjög gaman að fá að koma að stóru verkefni sem þessu og slíku fylgi ávallt mikil ánægja með vel unnið verk. Hann óskar börnunum í Þelamerkurskóla og í nærsveitum hans til hamingju með nýja svæðið.

Nýjast