Áður en Íslensk erfðagreining birtist á sjónarsviðinu, voru genarannsóknir auðvitað í skötulíki á landinu og raunar afar lítið um athuganir á erfðaþáttum og eðli Íslendinga almennt. Þó fór fram um 1970, all víðtæk mannfræðirannsókn á Þingeyingum þar sem einkum var hugað að samsetningu hins þingeyska blóðs og hugsanlegum skyldleika héraðsbúa við aðrar skepnur á jörðinni.
Fór tvennum ef ekki þrennum sögum af þessum rannsóknum. Og niðurstöðum þeirra, ef einhverjar voru, var aldrei haldið verulega á lofti í sýslunni. Skýring á þeirri þögn er kannski sú að það kvisaðist út að blóðrannsóknir bentu til að Þingeyingar væru skyldir úlföldum. Og um það kvað einmitt óþekktur hagyrðingur svo:
Um langan aldur við undum við þingeysk ljóð
og ilminn af hinni grænu menningarhríslu.
Og hvergi á landinu gerðist göfugra blóð,
né gáfaðri kynstofn, en norður í Þingeyjarsýslu.
Þar virtist hvert mannsbarn af guðlegu foreldri fætt.
Því féll okkur miður, er hvarvetna spurðist á þingum,
að rannsóknir bendi til tengsla við allt aðra ætt,
og úlfaldablóð hafi fundist í Þingeyingum.
Á þingeyskan gjörvileik gjarnan var borið hrós
og grunsemdalaust við könnuðum heimildaforðann.
En nú þykir sýnt, að kryppurnar komi í ljós
á kameldýrunum þarna fyrir norðan.