Þankastrik Jóa: Kynferðisleg aflandsfélög

Það væri ekki ónýtt að eiga aur þarna, nú eða bara einhversstaðar...
Það væri ekki ónýtt að eiga aur þarna, nú eða bara einhversstaðar...

Æ, æ. Maður er alveg miður sín eftir að hafa horft á Kastljós áðan. Fyrst og fremst vegna þess að það var útilokað að botna baun í hvað allt þetta fólk var að gera með því að stofna öll þessi félög án þess að leggja í þau eina einustu krónu og án þess að græða nokkurn skapaðan hlut á því. Þetta hlýtur bara að vera eitthvað kynferðislegt, að menn fái einhverskonar fullnægingu með því að að stofna gjörsamlega tilgangslaus félög út um lönd og álfur. Ég meina, ef þetta snýst ekki um hagnað, sem allir jú afneita, hvað þá?
Svo er maður náttúrlega miður sín yfir öllu því góða fólki, sem maður þekkir og veit því að er raunverulega gott fólk, en hefur lent í þeim hörmungum að eignast peninga - og verður þar með sjálfkrafa leiksoppar eða ginningarfífl gráðugra bankamanna. Og ég er alveg klár á því að ef ég hefði verið svo óheppinn að eignast peninga, þá hefði hvaða bankabanditt sem er getað spilað með mig til að stofna reikninga á annesjum og eyjum út um veröld víða. Þeir heilögu eru nefnilega aldrei betri en þeir bersyndugu - þetta er bara spurning um aðstöðumum.
En, auðvitað huggun harmi gegn að maður verður bara sífellt sáttari við eigið hlutskipti og einföldu ökonómíu, í ljósi þessara frétta af endalausu vafningaveseni og áhyggjum auðugra af öllum þessum bankareikningum sem þeir vita ekki einu sinni hvort þeir hafa stofnað eða þá til hvers og hvort þeir hafa grætt á þeim eða tapað. 
Nei, þá er nú betra að geta bara glaðst alla þá daga þegar maður á fyrir mat, húsaleigunni, bensíni, tóbaki, afmælisgjöfum til barnabarna – og góðar horfur eru á að maður geti líka borgað 10 þúsund kall inn á skuldina við bifreiðaverkstæðið – í næsta mánuði.

Nýjast