ÞANKAR GAMALS EYRARPÚKA

Barátta íslensku þjóðarinnar fyrir réttlæti og sjálfstæði fólst lengst af í því að berjast gegn áhrifum Dana og annarra útlendinga sem gerðu sig oft á árum áður seka um kúgun og yfirgang af ýmsu tagi. Réttlætisbaráttan fór víða fram og lögðu stjórnmálamenn, listamenn og almenningur sitt fram til að ná því markmiði að allir landsmenn byggju við frelsi og jafnrétti. Þessi sjálfbjargarviðleitni teygði sig allar götur til Barnaskólans á Akureyri um miðja síðustu öld þegar sviðsett var á barnaskemmtun skólans hið dramatíska leikrit Eiríks Sigurðssonar yfirkennara Margrét á Möðruvöllum.  Þetta var lýsing á voðaatburðum á 15. öld sem enduðu með því að Jóni Gerrekssyni, erlenda biskupnum í Skálholti, var drekkt í Brúará og sveinar hans strádrepnir hvar sem til þeirra náðist. Allt var þetta gert að áeggjan Margrétar og hennar manna en sjálf hafði hún hrökklast norður í land undan ofsóknum útlendinganna í Skálholti. Hún varð því goðsögn í lifanda lífi og litu landsmenn á hana sem sannkallaða frelsishetju. Svo mikið var lagt í þessa leiksýningu fyrir börnin að leikarinn og rakarinn Jón Kristinsson var fenginn til að stýra uppsetningunni og gera hana sem allra glæsilegasta fyrir nemendur skólans og gesti hans. Sjálfur lék ykkar einlægur mesta skúrkinn, Magnús biskupssvein, sem hlaut makleg málagjöld. Þarna kynntist ég Jóni rakara fyrst en síðar lágu leiðir okkar saman og var hann með athyglisverðari mönnum sem ég hef hitt á lífsleiðinni.

 Svo merkilegt sem það kann að virðast, verður Jóns Kristinssonar minnst í Íslandssögunni á svipaðan hátt og Margrétar á Möðruvöllum – frelsishetjunni sjálfri.

Þannig háttaði til að mörgum árum eftir uppsetningu leikritsins góða var Jón kominn í sömu aðstöðu og Margrét á sínum tíma, en í þetta skipti gagnvart ósveigjanlegum innlendum yfirvöldum. Hann var ákærður fyrir að hafa ekki stöðvað bíl sinn á gatnamótum þar sem var stöðvunarskylda; sagðist Jón hins vegar hafa stoppað farartæki sitt reglum samkvæmt og hélt uppi drengilegri vörn í héraðsdómi. Auk þess benti hann á að sama embættið væri bæði að rannsaka málið og dæma í því.  Slíkt gæti ekki staðist og vitnaði til alþjóða skuldbindinga sem Ísland væri aðili að og gerðu kröfu um skýran aðskilnað dóms- og framkvæmdavalds.  Ekkert var hlustað á röksemdir Jóns og íslenskir dómstólar sameinuðust um að dæma hann sekan.  Okkar maður gaf sig ekki frekar en Margrét á sínum tíma og áfrýjaði málinu til Mannréttindadómstóls Evrópu. Hann þurfti ekki að safna liði og fara með vopnum að andstæðingum sínum, drepa þá og drekkja eftir því sem hentaði hverju sinni. Nei, hann nýtti sér rétt sinn, rétt sem er afrakstur farsæls og gefandi Evrópusamstarfs. Ekki er að orðlengja það en Jón hafði að lokum fullnaðarsigur gagnvart innlenda yfirvaldinu. Þess vegna var ekki undan því vikist að færa þennan þátt rannsóknar- og dómsvaldsins undir sömu reglur og siðaðar þjóðir höfðu gert fyrir löngu. Hvorki íslenskir embættis- eða stjórnmálamenn höfðu haft döngun í sér hvað þá kjark til að standa með almenningi í þessu grundvallar mannréttindamáli.

Nei, það var einbeittur og heiðarlegur rakari að norðan sem kom þessu réttlætismáli í gegn með fulltingi að utan.  

 

  


Athugasemdir

Nýjast