Þakinu lyft upp á Garðar
Framkvæmdir við Garðar, elsta hluta Kaupfélagshússins ganga vel en Gunnar Jóhannesson umsjónarmaður fasteigna Gb5 sem á húsið, segir að framkvæmdirnar sé komnar vel á veg. Þetta gengur vel miðað við eðli viðfangsefnisins, sem er nokkuð umfangsmikið og fjölbreytt þ.e.a.s. verið að endurnýja og aðlaga hús sem komið er til ára sinna. Þetta hefur því eðlilega tekið sinn tíma,“ segir hann en bætir við að þetta sé ekki búið.
Virða söguna
„Það er gengið út frá því að vinna út frá tímalínunni, vinna með söguna og byggja á því. Færa húsið að einhverju leiti í útlit eins og það var. Samt er viðbótarbygging sem er svolítið hlutlaus,” útskýrir Gunnar.
,,Síðustu vikurnar hefur áhersla verið á jarðhæðina, s.s. ganga frá milliveggjum, unnið við lagnakerfi, pípulagnir, loftræstikerfi ofl. Þá er verið að klæða viðbygginguna að utan. Enn er mikið verk framundan næstu vikurnar en það styttist í að hægt verði að tala um verklok þessa áfanga,“ segir hann.
„Þetta er gamalt hús, byggt 1916-17, þetta þurfti auðvitað viðhald og sérstaklega að koma jarðhæðinni á eina hæð, þetta var mikið til á pöllum en hún er ss komin á eina hæð núna. Við endurnýjuðum það sem þurfti að endurnýja, þannig að þetta tekur sinn tíma. Ég þori ekki að segja til um hvenær þetta verður tekið í notkun en við skulum segja að þetta sé komið í lokaáfanga á jarðhæðinni,“ útskýrir Gunnar og bætir við að búið sé að hífa þakið á toppinn sem sé nær upprunalegu útliti.
Stór áfangi
„Þetta var stór áfangi að endurnýja þakið sem er komið á núna en á bara eftir að setja járnið á það. Þetta var risastóráfangi, og mögnuð útsjónarsemi að þakið var í raun og veru bara sett saman niðri á bílaplani og svo híft á pláss,” segir hann en það er Trésmiðjan Rein sem sér um framkvæmdirnar.
Gunnar leggur áherslu á að rauði þráðurinn í framkvæmdunum hafi verið að virða merka sögu hússins við ákvörðun um endurbætur á Garðari, m.a. með því að færa útlit hússins og þak til þess sem áður var. „En um leið að gera þær endurbætur innanhúss, og með lítilli hlutlausri viðbyggingu, sem gera það mögulegt að nýta vel þetta sögufræga hús og færa það jafnframt að þörfum nútímans,“ segir Gunnar að lokum.