Það er hugur í verslunarfólki á Glerártorgi

Halldór Halldórsson úrsmiður, sem rekur verslunina Halldór Ólafsson, úr og skart, í verslunarmiðstöðinni á Glerártorgi, segir að jólaverslunin það sem af er sé á  svipuðum nótum og undanfarin ár.  

"Maður býst nú við að jólaverslunin verði heldur minni í ár og svo má alveg reikna með frekari samdrætti í verslun þegar kemur fram á næsta ár. Reyndar eru miklir óvissutímar framundan og því erfitt að spá í þessa hluti." Halldór hefur verið með rekstur á Glerártorgi í 8 ár, eða frá upphafi og hann sagðist hafa átt von á miklum samdrætti í kjölfar bankahrunsins í síðasta mánuði "og það hreinlega greip mann töluverð svartsýni." Hann segir þó að almennt sé tónninn þokkalegur í rekstraraðilum á Glerártorgi.

"Lífið heldur áfram að snúast, það er hugur í fólki og þannig verður það að vera. Maður verður að vera bjartsýnn, það þýðir ekkert annað. Húsnæðið er ekki orðið alveg full nýtt en hér hafa verið að opna nýjar verslanir, Menn hafa trú á þessum stað, enda hefur hann sannað sig," sagði Halldór.

Kveikt var á jólatrénu á Glerártorgi fyrir skömmu og allir sem þar starfa eru komnir í jólaskap.

Nýjast