„Það er hægt að byggja sterkari og blómlegri byggðir og gera Ísland að landi tækifæra fyrir alla“

Njáll Trausti Friðbertsson, oddviti Sjálfstæðisflokks í NA kjördæmi
Njáll Trausti Friðbertsson, oddviti Sjálfstæðisflokks í NA kjördæmi

Vikublaðið heldur áfram oddvitaspjallinu fyrir komandi alþingiskosningar í haust. Nú er komið að Sjálfstæðisflokki en það er Njáll Trausti Friðbertsson sem er oddviti flokksins í NA-kjördæmi.

Njáll Trausti er fæddur  í Reykjavík en han var síðasta barn ársins fætt árið 1969. Hann ólst upp á Seltjarnarnesi og flutti til Akureyrar rétt upp úr tvítugu.

Njáll Trausti hefur verið búsettur á Akureyri í meira en 30 ár. Kvæntur Guðrúnu Gyðu Hauksdóttir hjúkrunarfræðingi og saman eiga þau tvo uppkomna syni og eitt barnabarn.

-Hver eru þín helstu áhugamál?

Þau eru býsna mörg, en helt útivist og að ferðast um landið. Ég hef gaman að fylgjast með íþróttum og þá sérstaklega fótbolta innanlands og þeim enska. Þungur er róðurinn hjá mínum mönnum í Arsenal.

-Af hverju ætti fólk að kjósa Sjálfstæðisflokkinn?

Vegna skýrrar framfarastefnu og sterkra frambjóðenda.

Á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðausturkjördæmi er ólíkt en öflugt fólk samstarfs og samstöðu með fjölbreyttan bakgrunn og víða að úr kjördæminu. Ungt og kröftugt baráttufólk í framvarðarsveit ásamt hinum eldri sem búa að reynslunni.

Saman tölum við fyrir athafnafrelsi og einkarekstri, gegn valdi ríkisrekstrar og miðstýringu, auknum sköttum og eftirliti. Sjálfstæðisfólk telur athafnafrelsi og velferð haldist í hendur og hver megi uppskera til samræmis við eigið framlag.

Á fundum um kjördæmið höfum við fundið sterkan hljómgrunn við þessi gildi og skynjað meðbyr og bjartsýni til endurreisnar, uppbyggingar og verðmætasköpunar. Hægt að byggja sterkari og blómlegri byggð og gera Ísland að landi tækifæra fyrir alla.

Hverjar eru ykkar áherslur?

Sjálfstæðisfólk hefur í þessum kosningum lagt mikla áherslu á mikilvægi traustra efnahagsmála. Fylgt verði áfram þeirri efnahagsstefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um allt frá árinu 2013. Sterk staða íslensks efnahagslífs og skynsamleg stjórn ríkisfjármála hefur gert Íslendingum kleift að takast á við efnahagslegar afleiðingar heimsfaraldurs kórónuveirunnar með árangursríkari hætti en flestum öðrum. Fólk og fyrirtæki vilja vöxt og stöðugleika.

-Hvernig má hlúa betur að brothættum byggðum á svæðinu?

Frelsi og val um búsetu byggir á kröfu um öfluga grunnþjónustu, öruggu og nægu rafmagni, öflugum fjarskiptum og samgöngum. Slíkt skapar tækifæri bæði fyrir dreifbýli og þéttbýli til bættra lífsgæða. Sé þetta til staðar getur fólk í dreifðari byggðum keppt við margmenni höfuðborgarsvæðins. Þetta er ekki spurning um ölmusu til heldur sanngjarnri kröfu að dreifðari byggðir hafi sömu tækifæri þegar kemur að uppbyggingu innviða nútímans.

Ég þreytist seint á að minna á að greiðar og öruggar samgöngur séu undirstaða atvinnulífs og samkeppnishæfni byggðarlaga. Við verðum að setja í forgang uppbyggingu nútímalegra, greiðra og öruggra samgangna um allt land – uppbygging  innviða með valkosti og fjölbreytni að leiðarljósi. Að sama skapi verður að hlúa að jöfnum tækifærum til menntunar.

Ég tel að í fjórðu iðnbyltingunni felist sóknarfæri fyrir landsbyggðina. Ekki síst ef við viljum raunverulega byggja upp byggða tengd störf.

-Hvar liggja helst sóknarfæri hér í landshlutanum?

Fyrir fólk í framfarahug eru sóknarfærin mörg.

Hér við Eyjafjörð og í Þingeyjarsýslum verðum við að þróa áfram grunnatvinnuvegi, sjávarútveg, landbúnað og ferðaþjónustu. En tækifærin eru víða:

Í fyrsta lagi nefni ég græna orku- og loftslagsverkefni eru kannski stærstu einstöku málin í tengslum við uppbyggingu sem myndi byggja upp samkeppnishæfni svæðisins. Sem dæmi að nú fyrir helgi Kröflulína þrjú spennusett en hún nær allt frá Fljótsdalsstöð til Kröflusvæðisins. Hólasandslína þrjú kemur fyrir áramót. Þá verður með tengingu milli Fljótsdalsstöðvar til Akureyrar byggð upp orkueyja á Norður- og Austurlandi. Með því skapast mikil atvinnutækifæri á svæðinu í framleiðslu rafeldsneytis ásamt fleiru.

Sterkur sjávarútvegur og aukið fiskeldi verður drifkraftur atvinnusköpunar og byggðafestu. Stærstur hluti atvinnutekna í fiskeldi verður til á landsbyggðinni. Sveitarfélög ættu að eiga beina hlutdeild í þeim tekjum.

Þegar kemur að sjávarútvegi og landbúnaði hafa sjálfstæðismenn sagt að í eignaréttinum felist mikilvæg náttúruvernd. Reynslan sýnir að skynsamleg og hagkvæm nýting náttúruauðlinda er að jafnaði best tryggð með því að nýtingar- og afnotaréttur sé í höndum einkaaðila.

Samhliða stækkun flugstöðvar og flughlaðs Akureyrarflugvallar næstu tvö árin verður að bæta aðflug úr suðri. Sama gildir um nauðsyn uppbyggingar Egilsstaðarflugvallar. Vilji menn nýta flugvellina til alþjóðlegs vöruútflutnings á fiskafurðum verðum við að gera þar betur.

Ég hef líka talað fyrir uppbyggingu Sjúkrahússins á Akureyri þar sem framundan er nýbygging 10.000 fm húsnæðis sem kostar um átta milljarða. Í því liggja sóknarfæri: Uppbygging innlends björgunarklasa í Eyjafirði sem fellur vel að metnaðarfullum áformum um þróun og notkun fjarheilbrigðisþjónustu við sjúkrahúsið. Það fer vel við þá þjálfun sjúkraflutningamanna á Íslandi sem er rekin er við sjúkrahúsið.

En almenn eigum við stjórnmálamenn að láta athafnafólki eftir að skapa og þróa tækifæri atvinnulífs. Stjórnmálanna er að skapa þá umgjörð sem hvetur til góðra verka. Stefnan á að vera skýr, án of mikilla afskipta ríkis og reglusetningar og byggð gagnsæi. Við eigum að beita jákvæðum hvötum í stað boða og banna.


Nýjast