Þá kemur fjármagnið

Ragnar Sverrisson.
Ragnar Sverrisson.

Þegar við fjallafólk lendum í villum er fátt snautlegra en að uppgötva að hafa gleymt GPS-tækinu og landakortinu heima. Verður þá gjarnan fát á fólkinu í þoku eða öðrum svipuðum aðstæðum og vandræðagangur töluverður enda ekki augljóst hvert halda skal og hættur við hvert fótmál. Er þá stundum vitnað í orð skáldsins sem sagði: "Eitt er víst að þetta endar allt einhvern veginn."

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort eins sé komið fyrir bæjarstjórninni okkar sem virðist hafa gleymt því að eftir áralangar umræður, lýðræðislega meðferð, mikil fjárútlát og aðkomu sérfræðinga var tekin samhljóða ákvörðun í bæjarstjórn árið 2014 um deiliskipulag miðbæjarins. Ekki er ljóst hvað veldur þessari gleymsku hinna eldri en svo virðist sem yngri bæjarfulltrúar hafi aldrei heyrt þess getið að í gildi er mjög vel unnið deiliskipulag fyrir þennan hluta bæjarins. Sjálfur hef ég oft þurft í einkasamtölum að rifja upp fyrir einstaka bæjarfulltrúum hvað ákveðið var í þessum efnum og staðfest formlega í bæjarstjórn. Því  verður að virða mér til vorkunnar að stundum hef ég á tilfinningunni að þetta góða fólk hafi gleymt GPS-tækinu heima og ráfi um í algjörri villu á heiðum uppi; þekki hvorki haus né sporð á deiliskipulaginu og forsendum þess og nenni jafnvel ekki að kynna sér það.

Grundvöllur gildandi  skipulags er að búa til vistvænan miðbæ í samræmi við óskir fjölmennasta íbúaþings sem haldið hefur verið um slíka stefnumörkun hér á landi. Einn þáttur skipulagsins er að hægja á umferð í gegnum miðbæinn og gera Glerárgötuna frá Torfunefi út að Strandgötu vistvæna þar sem gangandi og hjólandi vegfarendur hafi forgang og eigi greiða leið frá miðbænum að höfninni. Þetta var mjög framsýn stefna á sínum tíma og nú er svo komið að flestar borgir og bæir um víða veröld kosta kapps um að hægja á umferð á miðsvæðum sínum og bæta hlut gangandi og hjólandi vegfarenda. Annað er talið með öllu úrelt og raunar óboðlegt í nútíma samfélagi.

Eins og einhverjir muna var umræðan um miðbæjarskipulagið í sjálfheldu þegar Oddur Helgi og fólkið hans á L-listanum tók myndarlega af skarið og beitti sér fyrir þeirri lausn sem núgildandi skipulag byggir á. Ekki hef ég orðið var við að eftirmenn hans á listanum hafi mikinn áhuga á þeirri merkilegu arfleifð eða beiti sér á nokkurn hátt til að raungera hana. En hver veit nema Eyjólfur hressist. Vinstri grænir hér í bæ lýsa yfir miklum áhuga á náttúruvernd og mannlegu umhverfi en samt er þögn þeirra ærandi um vistvænan miðbæ - ekki eitt orð og heldur engar athafnir, ekkert. Framsóknarmenn í bæjarstjórn vilja fara svo gætilega í þessu öllu að samanburður við hraða skjaldbökunnar er með öllu óraunhæfur. Hún myndi ganga Frammara snarlega af sér enda þótt skjaldbakan sé höll undir kenninguna um sígandi lukku eins og þeir. Sjálfstæðismenn hafa lýst miklum áhuga á að gera hraðbraut í gegnum miðbæinn sem er eins og óp úr fortíðinni enda alls staðar á undanhaldi þar sem áhugi er á vistvænni byggð. Ekki einu sinni það vaska fólk getur breytt gangi himintungla; hver vill fretandi bíla á fullri ferð ofan í sér á vistvænum svæðum? Ekkert hefur hingað til bent til þess að tilvist Miðflokksins í bæjarstjórn muni raska þeirri værð sem þar ríkir í þessu máli sem og öðrum. Hann ónáðar engan.

Þá er komið að mínum flokki, Samfylkingunni. Sannarlega var samvinna Loga Einarssonar fyrrum leiðtoga flokksins í bænum og Odds Helga farsæl við undirbúning og útfærslu núgildandi deiliskipulags miðbæjarins, lausnarmiðað og komist að niðurstöðu um mörg grunvallaratriði. Þeir félagar snéru sér síðan að öðrum störfum, trúlega í þeirri vissu að verkinu yrði haldið áfram af sama krafti og þeir gerðu. En þá byrjaði tregðulögmálið fyrst að læsa klóm sínum í fólkið.  Ekki hef ég tölu á hversu oft ég hef rætt þessi mál á fundum í flokknum mínum. Lengst af hef ég mætt áhugaleysi núverandi fulltrúa flokksins í bæjarstjórn enda þótt á síðustu mánuðum megi skynja vaxandi áhuga almennra flokksmanna á að láta verkin tala. Hef ég þá spurt mig að því hvort forystuna skorti tiltrú á mikilvægi þess fyrir bæjarfélagið að miðbærinn rísi eins og flokkurinn lagði sjálfur til og beitti sér á sínum tíma af alefli fyrir ásamt öðru góðu fólki í bæjarstjórn. Alltént hefur lítið farið fyrir frumkvæði okkar fulltrúa í þessum mikilvæga málaflokki og engu líkara en þeir séu að fullu gengnir í björg Framsóknar sem ku vera notalegur og vistvænn samastaður!

Vonandi er þetta ástand þó bara lognið á undan storminum sem að lokum feikir burt þokunni og bæjarfulltrúar nái áttum með leiðsögubók sína  (deiliskipulagið) í höndum. Þegar haustar sé ég þá fjallhressa fyrir mér stíga á stokk eftir gott sumarfrí, blása hver öðrum eldmóð í brjóst og sameinast um að undirbúa nauðsynlegar framkvæmdir svo hægt verði að ganga frá vistvænni Glerárgötu ofan og sunnan við Hof, ákveða bílahús fyrir miðbæinn og hefja framkvæmdir við umferðarmiðstöð norðan ráðhússins. Auk þess verði hafist handa um að markaðsetja verðmætustu lóðir bæjarins vestan Hofs en vitað er að sterkir fjárfestar hafa mikinn áhuga á að koma að uppbyggingu þar. Þá kemur fjármagnið til að byggja upp perlu allra miðbæja og leggja þar með grunn að því að Akureyri verði enn eftirsóknarverðari bær og raunverulegt mótvægi við höfuðborgarsvæðið. Til þess þarf vel mótaða framtíðarsýn og metnað svo hún komist í framkvæmd.

-Ragnar Sverrisson, kaupmaður

 


Athugasemdir

Nýjast