Testósterón ráðið utanríkisstefnu

„Hið mikla magn testósteróns, sem hefur svifið yfir vötnum í utanríkisráðuneytinu til þessa, hefur án efa haft áhrif á þau áherslumál sem Ísland hefur sett á oddinn í utanríkismálum í gegnum tíðina. Stundum má segja að þar hafi ekki allaf verið á ferðinni málaflokkar sem ættu að vera forgangsatriði herlausrar þjóðar." Þetta sagði Valgerður Sverrisdóttir utanríkisráðherra á fundi í Háskólanum á Akureyri í dag.

Fundurinn, sem haldinn var í húsakynnum HA á Sólborg nú í hádeginu, fjallaði um konur í stjórnmálum og utanríkismál. Í framhaldi af yfirlýsingu Valgerðar um hin „karllægu gildi" sem ráðið hafa í utanríkisstefnu þjóðarinnar reifaði hún þær áherslubreytingar sem hún hefur staðið fyrir s.s. áherslu á þróunarmál, mannréttindamál, friðargæslu og jafnréttismál. Þessum málum hafa ýmsir lýst sem „mjúkum málum" en Valgerður spurði: „Hvað er „mjúkt" við fátækt og hungur, mannréttindi, málefni flóttamanna, barnahermennsku eða uppbyggingu stríðshrjáðra svæða? Þetta eru ekki málefni sem varða konur frekar en karla, eða eru „mýkri" en önnur mál."

Það kom jafnframt fram í ræðu Valgerðar að fyrr í dag skrifaði hún undir nýja jafnréttisáætlun fyrir utanríkisráðuneytið og er það nýjasta skrefið af mörgum sem hún hefur tekið við að auka hlut kvenna og jafnréttisumræðu í utanríkisráðuneytinu og utanríkisstefnu þjóðarinnar. Um þetta sagði utanríkisráðherra m.a.: „Nú er það svo að oft geta ýmsar áskoranir fylgt því að starfsmaður á fámennri starfsstöð erlendis fari í fæðingarorlof. Það er þó aðeins verkefni til að ráða fram úr og fagna ég því að það hefur færst í aukana í utanríkisráðuneytinu að starfsmenn af báðum kynjum nýti sér fæðingarorlof sitt. Það er mikilvægt jafnréttismál að karlar og konur taki jafna ábyrgð í uppeldi barna og mikilvægt fyrir framgöngu kvenna í utanríkisþjónustunni að kynin axli þar jafna ábyrgð."

Valgerður kom víða við í ræðu sinni og gagnrýndi m.a. ýmsa samferðamenn sína í stjórnmálum hér á landi fyrir karlrembu og virðingarleysi fyrir konum í orðræðunni og fengu þar bæði Geir Haarde, Guðni Ágústsson og þó sérstaklega Steingrímur J. Sigfússon sínar sneiðar.

Nýjast