Telur markaðslegar forsendur fyrir tvö millilandaflug til og frá Akureyri á viku

Sigurður Hermannsson umdæmisstjóri Isavia á Norðurlandi.
Sigurður Hermannsson umdæmisstjóri Isavia á Norðurlandi.

Sigurður Hermannsson umdæmisstjóri Isavia ohf. á Norðurlandi, lætur af störfum í lok ágúst nk. vegna aldurs og hefur staða hans verið auglýst laus til umsóknar. Sigurður hóf störf hjá Flugmálastjórn Íslands þann 1. desember 1997 en áður starfaði hann hjá Verkfræðistofu Norðurlands og var einn af stofnendum VN. Frá þeim tíma sem Sigurður hóf störf hjá Flugmálastjórn, hefur stofnunin tvívegis skipt um nafn, samhliða einhverjum breytingum á hlutverki hennar. Fyrst var nafninu breytt í Flugstoðir ohf. í ársbyrjun 2007 en opinbera hlutafélagið Isavia ohf. tók við öllum rekstri, eignum og skuldbindingum Flugstoða og Keflavíkurflugvallar hinn 1. maí 2010. Sigurður segir að þessi tími hjá stofnuninni hafi um margt verið ánægjulegur.

„Ég hefði þó viljað ná betri árangri varðandi ýmsar breytingar hér í umdæminu. Ég hefði t.d. viljað vera lengra kominn með að fylgja  eftir fyrirhuguðum framkvæmdum á Akureyrarflugvelli og þá er maður ekki sáttur við þann samdrátt sem á sér stað að hluta til í flugi á öðrum stöðum í umdæminu. Þar er ég að tala um Sauðárkrók og hugsanlega eru að verða aðrar breytingar varðandi styrkt flug t.d. út frá Akureyri eins og  til Grímseyjar, Þórshafnar og Vopnafjarðar. Það liggur í loftinu að styrkir muni ganga til baka á þeim stöðum og þá veit maður ekki hver þróunin verður í fluginu. Hef þó þá trú að flug til Grímseyjar muni áfram njóta sérstöðu. En Húsavík er að vísu að kom inn aftur núna,“ segir Sigurður.

Ekki mikið gert á næstu árum 

Varðandi fyrirhugaðar framkvæmdir á Akureyrarflugvelli sem hann hefði viljað að væru lengra á veg komnar , nefnir Sigurður stækkun flugstöðvarinnar, breytingu og stækkun á flughlaði og bætt aðflug inn á norðurenda flugbrautarinnar. „Það eru komin fram drög að samgönguáætlun og samkvæmt þeim drögum lítur ekki út fyrir að það verði mikið gert hér á Akureyri á næstu árum né annarstaðar í umdæminu.“

Aðilar í ferðaþjónustu á svæðinu eru að vinna að því að koma á reglubundnu millilandaflugi til og frá Akureyri, með flugklasaverkefninu Air66. Sigurður segir að sú vinna lofi góðu, enda sé mjög mikilvægt að menn vinni saman, líkt og menn hafi verið að gera í flugklasanum. Þetta hefst ekki nema með samstilltu átaki.“

Varðandi flugið til Akureyrar á síðasta ári, segir Sigurður að aukning hafi orðið í innanlandsfluginu og að menn geti vel við unað hvað það snertir.

Það þarf þolinmæði 

„Við hefðum viljað sjá meira beint millilandaflug en það er ekki sjáanleg aukning á þessu ári, þar sem ferðir Iceland Express til Kaupmannahafnar verða færri en í fyrra. Að óbreyttu verður því frekar um samdrátt að ræða hvað beint millilandaflug varðar. Að vísu mun fyrirhugað tengiflug Icelandair bæta það upp og væntanlega gott betur. Ég tel að það þurfi að koma að lágmarki upp tveimur millilandaferðum á viku til þess að fá þetta til að virka, þannig að heimaaðilar og viðskiptalífið geti nýtt sér flugið betur. Ég tel að markaðslega séu allir forsendur til þess. En við verðum líka að gera okkur grein fyrir að hér er um langhlaup að ræða og því þarf þolinmæði. Norðurland hefur upp á margt að bjóða en það er ekki nóg að fá farþegana hingað, því svæðið verður að vera tilbúið að taka á móti þeim og hafa upp á eitthvað að bjóða. Það er eitt af því sem unnið er að í flugklasanum.“

Aðspurður um hvað standi uppúr eftir þennan tíma í starfi umdæmisstjóra, nefnir Sigurður allt það góða fólk sem hann hefur unnið með í gegnum tíðina og fyrir það er hann þakklátur. Einnig hafi hann kynnst mörgu mjög góðu fólki í starfinu. Sigurður hefur ekki áhyggjur af verkefnaskorti eftir að hann lætur af störfum. „Maður finnur sér eitthvað til að föndra við, ég á sumarbústað til að dunda við. Það er aldrei að vita nema maður eignist eitthvert áhugamál og svo er bara að njóta lífsins á meðan heilsan leyfir.“

 

 

Nýjast