Telja grunnframfærslu LÍN alltof lága
Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri (FSHA) fer fram á það við vinnslu á endurskoðun lagafrumvarps LÍN að sú aðferðafræði sem viðhöfð hefur verið hér um langa hríð sem snýr að því að stúdentar eru hvattir til aukinnar skuldsetningar á meðan á námi stendur verði aflögð og litið sé til styrkjakerfa sem nágrannaþjóðir okkar hafa komið á fyrir háskólanema í þeirra löndum.
Innan menntamálaráðuneytisins er nú unnið að endurskoðun laga um LÍN og stefnt er að því að lagafrumvarp þess efnis verði lagt fram eigi síðar en vorið 2015. Þá telur FSHA að sú grunnframfærsla sem LÍN miðar nú við og stendur í 149.459 krónum sé allt of lág og úr takti við þann veruleika sem Íslendingar búa við. FSHA telur að grunnframfærsla LÍN eigi ekki að vera lægri en atvinnuleysisbætur sem nú eru rúmar 184.000 krónur.
FSHA telur að þrátt fyrir að til skamms tíma muni aukið fjármagn fara til málaflokksins eigi að líta til lengri framtíðar, enda sé vel menntuð þjóð ein sú besta fjárfesting sem hægt er að leggja í. Það er menntamálayfirvalda að tryggja að hér verði jafnrétti til náms og að efnaminni námsmenn eigi þann kost að geta stundað nám án þess að það hafi miklar fjárhagslegar áhyggjur í för með sér. FSHA hvetur menntamálayfirvöld að horfa til þessa við vinnslu frumvarpsins og beinir því til þingmanna að hafa hagsmuni háskólanema að leiðarljósi þegar frumvarpið verður lagt fyrir þingið.