Á síðasta ári voru heildartekjur Hafnasamlags Norðurlands vegna komu skemmtiferðaskipa til Akureyrar rúmar 48 milljónir króna og höfðu þá aldrei verið hærri. Í ár eru tekjurnar rúmar 67 milljónir króna, samkvæmt upplýsingum Péturs Ólafssonar skrifstofustjóra Hafnasamlags Norðurlands. Farþegarnir sem heimsóttu Akureyri í sumar voru af rúmlega 60 þjóðernum, flestir frá Þýskalandi, eða rúmlega 21.000. Bretar voru um 12.850, Bandaríkjamenn um 5.400, Ítalir um 1.300 og um 1.000 farþegar komu frá Kanada.
Á næsta ári er gert ráð fyrir um 60 skipakomum og að farþegum fjölgi enn frekar. Samkvæmt spá Akureyrarhafnar er áætlað að til bæjarins komi um 60.000 farþegar og að í áhöfn skipanna verði tæplega 30.000 manns. Þetta er í samræmi við þróunina síðustu ár, sem hefur verið í þátt átt að hingað koma stærri skip með fleiri farþega og áhafnameðlimi.