Tekjuáætlunin byggist á skýjaborgum og óhóflegri bjartsýni

Bæjarfulltrúi Bæjarlistans vildi lækka framlag til AFE, þar sem félagið hafi ekki staðið sig í ár eð…
Bæjarfulltrúi Bæjarlistans vildi lækka framlag til AFE, þar sem félagið hafi ekki staðið sig í ár eða í fyrra.

Sigurður Guðmundsson bæjarfulltrúi Bæjarlistans, gagnrýndi fjárhagsáætlun Akureyrarbæjar fyrir næsta ár, sem samþykkt var að lokinni síðari umræðu í bæjarstjórn í vikunni. Sigurður sagði það sorglegasta í þessu ferli, að ekki væru lagðar nokkrar línur til hagræðingar á næsta ári, nema þá mýflugumynd. “Tekjuáætlun næsta árs byggist að hluta til á skýjaborgum og óhóflegri bjartsýni.”

Sigurður sagði nauðsynlegt að fylgja fjárhagsáætluninni eftir en að engin teikn væru á lofti um slíkt. Það hafi líka átt að gera á þessu ári en hafi ekki verið gert á þann hátt sem rætt var um. Hann sagði það hlutverk bæjarfulltrúa að fylgja þessum fjárhagsáætlunum eftir, vera inn í málaflokkunum og fylgjast með því að þar gangi hlutnir líka eftir. Sigurður sagði það væri hægt að hagræða heilmikið en að það væri ekki auðvelt, það þyrfti að fara inn í einstaka málaflokka og taka erfiðar ákvarðanir.

Sigurður lagði fram tillögu að sparnaði upp á 300 milljónir króna. Hann lagði til endurskoðun á opnunartíma Glerárlaugar, hún yrði opin fyrir skólasund og sund fyrir fatlaða en lokuð þess á milli. Skólaaksturinn verði tengdur inn á rekstur strætisvagnanna, forstöðumönnum íþróttamannvirkja verði fækkað og að reynt verði að hagræða í rekstri þeirra. Sigurður sagði að launakostnaður væri að hækka um 10-15% á milli ára og lagði hann til 2% launahagræðingu á alla málaflokka, þannig væri hægt að spara alls um 180 milljónir króna. Hann lagði til að tekið yrði upp ráðningarbann hjá bænum, þar sem eru um 1.500 stöðugildi. Ekki þurfa að segja upp fólki, heldur nýta starfsmannaveltuna til að fækka um ein 20 störf. Þannig sé hægt að spara 60-80 milljónir króna á ári. Sigurður vill að styrkir til stjórnmálaflokka og annarra framboða verði aflagðir og að námsstyrkir embættismanna upp á 12 milljónir króna verði teknir til baka. Hann sagðist ekki skilja þá ákvörðun að setja þessa upphæð til handa 17 embætismönnum. “Við erum að setja 20 milljónir í Atvinnuþróunarfélag Eyjarfjarðar en Atvinnuþróunarfélagið hefur ekki staðið fyrir sínu í árinu og ekki heldur í fyrra, við tökum af þeim 5 milljónir,” sagði Sigurður.

Hann sagði að tómstundaávísanir hefðu kostað bæinn á þessu ári 11,5 milljónir, þar sem ávísanir hafi skilað sér frá um 1.150 börnum á Akureyri. “Þetta kostaði minna en við ætlum að setja í námssjóð 17 embættismanna, sem eru 12 milljónir. Við getum tekið þær 12 milljónir og bætt við aldurshópnum 12-16 ára inn í þann hóp sem fær tómstundaávísanir í dag og eru aldrinum 6-11 ára.” Sigurður sagði að einnig væri hægt leggja 20 milljónir til leikskóla, þannig að hækkunin þar yrði 5% en ekki 12% eins og samþykkt var. Tillögur Sigurðar voru felldar af meirihluta bæjarstjórnar.

 

 

Nýjast