Þeir Ragnar Arnalds og Þorvaldur Gylfason munu takast á um Evrópumálin á kappræðufundi sem haldinn verður í Háskólanum á Akureyri í hádeginu á þriðjudag. Fundurinn hefst kl 12:30 og er í stofu L101 á Sólborg. Búist er við fjörugum fundi, en Ragnar hefur verið mjög gagnrýninn á Evrópusamrunann og þátttöku Íslands í honum á meðan Þorvaldur hefur verið á algerlega öndverðum meiði.
Það eru samtökin Heimsýn annars vegar og Evrópusamtökin hins vegar í samstarfi við Félagsvísinda og lagadeild Háskólans sem standa að þessum fundi og er hugmyndin að endurtaka kappræðurnar víðar á landinu ef vel tekst til. Það telst til tíðinda að haldinn sé fundur af þessu tagi um Evrópumálin, sérstaklega að fengnir séu til umræðunnar svo þekktir og hátt skrifaðir talsmenn hvors sjónarmiðs um sig. Málefnið er afar brýnt og viðbúið að það muni koma á dagskrá í kosningabaráttunni. Á fundinum á þriðjudag gefst almennum fundarmönnum tækifæri til að blanda sér í umræðuna með fyrirspurnum eða stuttum athugasemdum.