Tap hjá handknattleiksliði Akureyrar fyrsta leik

Akureyri tapaði sínum fyrsta leik í N1 deildinni í handbolta gegn FH í Höllinni á Akureyri nú í kvöld. Lokatölur urðu 31-26 fyrir FH en sú niðurstaða gefur ekki rétta mynd af leiknum.

Frábær stemmning var í Höllinni og stúkan sem rúmar rúmlega 600 manns í sæti var nær full. Greinilegt er að mikill meðbyr er með Akureyrarliðinu um þessar mundir og vonandi að framhald verði á þrátt fyrir vonbrigði í fyrsta leik.

Mikil taugaspenna virtist vera í liði Akureyrar í byrjun leiks því FH-ingar voru sterkari fyrstu mínúturnar og höfðu yfir 6-2 eftir 10 mín. leik. Smán saman vöknuðu Akureyringar til lífsins og unnu sig inn í leikinn. Jónatan Magnússon, langbesti leikmaður Akureyrar í leiknum skoraði svo síðasta mark hálfleiksins og kom Akureyri yfir 14-13.

Lengi framan af seinni hálfleik virtist einungis vera spurning um hvenær Akureyri næði þriggja marka forystu. Liðið hafði yfir 22-20 þegar 15 mín. voru eftir en þá fór að halla undan fæti. Jónatan Magnússon kom Akureyri yfir 26-25 þegar um 6 mínútur voru til leiksloka en eftir fylgdi hreint út sagt skelfilegur leikkafli. FH skoraði sex síðustu mörk leiksins og innbyrti sigur 31-25.

Ásamt Jónatan átti Árni Sigtryggsson góðan leik hjá Akureyri en því miður náðu flestir hinna leikmannanna sér ekki almennilega á strik. Árni var mjög vonsvikinn í leikslok: ,,Þetta voru gríðarleg vonbrigði í kvöld það er óhætt að segja það. Það sem klikkar hjá okkur er augljóslega það að við skorum ekki mark síðustu sex mínútur leiksins. Stemmningin var frábær og þess vegna var alveg hundfúlt að tapa þessu, við ætluðum að vinna til að fá þetta fólk aftur í Höllina. Ég vona að fólk gefi okkur annað rækifæri, við svíkjum það ekki þá. Þetta var mikil skemmtun og mikilvægt fyrir okkur að fá svona góðan stuðning og mér þykir mjög leitt hvernig þetta fór."

Mörk Akureyrar: Jónatan Magnússon 13 (7 úr vítum), Árni Sigtryggsson 6, Andri Snær Stefánsson 2, Hörður Fannar Sigþórsson 2, Rúnar Sigtryggsson 2, Þorvaldur Þorvaldsson 1. Hafþór Einarsson varði 13 skot.

Nýjast