Tæplega 40 þúsund gistinætur á tjaldsvæðunum í sumar

„Við erum afskaplega ánægð með sumarið, það var gott og allt gekk mjög vel," segir Tryggvi Marinósson framkvæmdastjóri Hamra, útilífs- og umhverfismiðstöðvar, en gistinætur á tjaldsvæðunum að Hömrum og við Þórunnarstræti urðu um 39.000 talsins á liðnu sumri.  Það er mun meira en var í fyrrasumar, en þess ber að geta að sumarið 2008 var fremur slakt og voru gistinætur á mun færri en var árið á undan, 2007.   

Helsta ástæða þess að gistinóttum fjölgar svo mjög nú í sumar segir Tryggvi vera þá að útlendingar voru mun meira á ferðinni en áður, en áberandi flestir þeirra voru frá Þýskalandi og Frakklandi og þá varð umtalsverð aukning í hópi Dana sem Tryggvi telur að megi rekja til beins áætlunarflugs frá Kaupmannahöfn á liðnu sumri. Annars hefðu Norðurlandabúar almennt verið fremur sjaldséðir gestir á tjaldsvæðum Akureyringa þetta sumarið.

Gestir tjaldsvæðanna skiptust þannig að Íslendingar voru 26.500 talsins og útlendingar um 12.500.  Árið á undan voru íslenskir ferðalangar um 21.500 en útlendingar um 8.500.  Áberandi mikið var um það í sumar að sögn Tryggva að erlendir ferðamenn væru á eigin vegum á bílaleigubílum.

Tryggvi segist afar ánægður með sumarið og góða útkomu, einkum í ljósi þess „að við misstum nánast eina helgi úr sem að jafnði er mjög stór hjá okkur," segir hann og vísar til landsmótshelgarinnar, önnur helgin í júlí, en þá voru útbúin sér tjaldsvæði fyrir keppendur mótsins og fáir gistu á tjaldsvæðunum að Hömrum og við Þórunnarstræti.  Þá var heldur ekki mjög margt fólk á svæðunum um verslunarmannahelgina. Á móti kemur að önnur helgin í ágúst, þegar haldinn var Fiskidagur á Dalvík og Handverkssýning í Eyjafjarðarsveit var mjög stór á tjaldvæðunum á Akureyri og ein af þeim stærri í sumar.  Tryggvi segir að margir hafi kosið að gista að Hömrum en sækja viðburði þaðan og skipti þar mestu hversu barnvænt tjaldsvæðið er og mikið fyrir börn að gera á svæðinu.  „Við heyrðum það oft og iðulega að fólk vildi vera á Hömrum vegna barnanna og munum einbeita okkur að því að gera svæðið sem best úr garði með þau í huga í framtíðinni," segir hann.

Tryggvi segir að athygli veki nú þegar sumarið er gert upp að mánuðirnir maí og september voru óvenju góðir.  Útlendingar voru einkum á ferð nú í haust en það sem skiptir mestu hvað vormánuðinn maí varðar er að hvítasunnuhelgin var í lok maí, veðrið var gott og því ferðahugur í mörgum Íslendingum sem héldu þá þegar af stað í fyrstu útilegu sumarsins.

Nýjast