Tækniháskóli á Akureyri

Það er oft vísað til þess að Akureyri sé iðnaðarbær og skólabær. Iðnfyrirtækin sem eitt sinn voru rekin á Akureyri eru nú flest horfin í þeirri mynd sem þau voru og ný tekin við á þeim grunni.

Í eina tíð voru flest störf í iðnaði fyrir verkafólk, en nú kallar iðnaður í vaxandi mæli á tæknimenntað fólk og framþróun ræðst að miklu leyti af aukinni tækniþekkingu. Verkmenntaskólinn á Akureyri hefur menntað stóran hluta af því starfsfólki sem nú sinnir störfum í iðnfyrirtækjum bæjarins og Háskólinn á Akureyri hefur aukið menntunarstig á svæðinu, atvinnulífinu til góða á sumum sviðum. Hlutverk VMA hefur verið afar mikilvægt fyrir atvinnulífið og skólinn hefur náð góðum árangri síðustu ár við að efla samstarfið við atvinnulífið. Rökrétt framhald af því er að hefja tækninám á háskólastigi á Akureyri.

Tækninám á háskólastigi getur byggt á grunni MA, VMA og Háskólans á Akureyri. Í þessum skólum er samankomin mikil þekking og reynsla og því er skrefið kannski ekki eins stórt og margir gætu haldið.

Nauðsynlegur grunnur undir öflugt atvinnulíf á Akureyri

Tækniháskóli myndi efla fyrirtækin hér í bænum og stuðla að frekari nýsköpun og frumkvöðlastarfi – og þar með fleiri hálaunastörfum sem nauðsynleg eru inn í samfélagið okkar. Aukinn aðgangur að góðu vel menntuðu starfsfólki getur orðið lyftistöng fyrir atvinnulífið á Akureyri og samvinna atvinnulífsins og skólanna er nauðsynleg til verkefnið gangi upp. Í framhaldsskólum er afar gott iðn- og tækninám og nemendur úr þeim greinum bíða eftir námstækifærum sem taka við að loknu námi í framhaldsskóla. Við verðum að fara að átta okkur á því að flestar iðnnámsbrautir eru ekkert síðri undirbúningur fyrir háskólanám en bóknámsbrautirnar, sérstaklega fyrir þá einstaklinga sem stefna á tækninám. Á hátíðarstundum er talað um eflingu iðn- og tæknináms en það fylgir sjaldan því hvað það þýðir. Fyrir einstaklingana þýðir það oft á tíðum góð störf þar sem eftirspurn er eftir góðu og vel menntuðum fagfólki en háskólarnir eiga líka að líta á þessa fagmenntun sem eftirsóknarverða inn í háskólanám.

Það er verkefni bæjarstjórnar á Akureyri að vinna að vexti og viðgangi öflugs atvinnulífs en einnig að reyna að tengja þessa tvo sterku stofna saman; HA og atvinnulífið. Fyrirtækin eiga það fyllilega skilið að við sem verðum kjörin í bæjarstjórn búum þeim þannig umhverfi að þau geti áfram vaxið og dafnað okkur öllum til hagsbóta. Það er eitt af mikilvægustu verkefnum bæjarstjórnar á komandi kjörtímabili.

Öflugt tækninám á háskólastigi á Akureyri mun efla bæinn okkar – alveg eins og tilkoma HA breytti fagmennsku innan heilbrigðisstofnanna og skólanna hér á Akureyri á sínum tíma.

Sigríður Huld Jónsdóttir er aðstoðarskólameistari VMA og skipar annað sæti á lista Samfylkingarinnar á Akureyri.

 

 

 

 

 

 

Nýjast