Tækifæri fólgin í einstökum námsleiðum

Telma og Sæþór á nýnemadögum í HA árið 2017 ásamt Húsvíkingnum Ásgeiri Sigurgeirssyni.
Telma og Sæþór á nýnemadögum í HA árið 2017 ásamt Húsvíkingnum Ásgeiri Sigurgeirssyni.

Opið er fyrir umsóknir í nám við Háskólann á Akureyri til 5. júní. Háskólinn býður upp á fjölbreyttar námsleiðir í grunn- og framhaldsnámi auk þess sem tækifæri eru fólgin í einstökum námsleiðum sem aðeins eru í boði við Háskólann á Akureyri. Húsvíkingarnir Sæþór Olgeirsson og Telma Rós Hallsdóttir völdu slíka námsleið en þau eru bæði útskrifaðir sjávarútvegsfræðingar frá HA. Þau luku BS-prófi í sjávarútvegsfræði í júní 2020 og bættu bæði við sig einu ári í viðskiptafræði og luku þeirri gráðu ári seinna. „Ég veit ekki hvort allir gera sér grein fyrir tækifærinu sem felst í því að ljúka tveimur háskólagráðum á aðeins fjórum árum. Eftir að hafa lokið sjávarútvegsfræðinni var ekki spurning fyrir okkur að bæta viðskiptafræðinni við en það styrki stöðu okkar til muna,“ segir Telma Rós, sem starfar í dag sem fjármálasérfræðingur hjá PCC BakkiSilicon en Sæþór er innkaupastjóri hjá GPG Seafood. Framundan eru spennandi tímar hjá parinu þar sem þau eiga von á sínu fyrsta barni í byrjun september.

Hvaðan eruð þið?

Sæþór: Frábær spurning! Ég er það heppinn að vera bæði af Tjörnesi (fallegasti staður á Íslandi) og úr Aðaldal (næst fallegasti staður á Íslandi). Síðan er maður úr Skálabrekku, sem er fallegasti staður á Húsavík.

Telma: Líklega erfiðasta spurning sem ég fæ en ég hugsa að ég verði að segja að ég sé frá Patreksfirði og úr Biskupstungum, en mig langar nú að vona að ég fari fljótlega að teljast Húsvíkingur!

Góður grunnur fyrir hin ýmsu störf

Telma og Á

Sæþór vissi alltaf að hann vildi læra sjávarútvegsfræði: „HA er eini skólinn sem býður upp á sjávarútvegsfræði og því var valið um háskóla mjög einfalt og ég sé alls ekki eftir því. Ég var auk þess bara klukkustund að keyra til Húsavíkur í mat til Bínu (mömmu) ef ég var mjög svangur, sem gerðist ekkert allt of oft, en stundum,“ segir Sæþór um ákvörðunina um að velja Háskólann á Akureyri.

Telma tekur undir með Sæþóri varðandi fjarlægðina: „Ég vissi lengi vel ekki hvað mig langaði að læra, en fannst fjölbreytt og spennandi námsúrval í HA. Mér fannst stærðin á skólanum einnig heillandi, komandi af litlum stað. Svo var auðvitað bónus að Akureyri er í passlegri fjarlægð að heiman.“

Sjávarútvegurinn hefur oft verið talinn frekar karllægur en Telma segist þó aldrei hafa upplifað það á neikvæðan hátt: „Ég spáði í raun aldrei neitt sérstaklega í það. Ég held einnig að þetta sé mikið breytt í dag, það eru sífellt fleiri konur að bætast í hópinn og það ber alltaf minna á því að fagið sé karllægt. Ég myndi hiklaust segja að sjávarútvegsfræði væri fyrir öll kyn.“

Telma hvetur öll þau sem eru að huga að háskólanámi að íhuga sjávarútvegsfræði alvarlega: „Sjávarútvegsfræði er fyrir öll þau sem hafa áhuga á sjávarútveginum að einhverju leyti. Námið er ótrúlega fjölbreytt, sem veldur því að gráðan er góður grunnur fyrir hin ýmsu störf. Í náminu er mikið og gott samstarf við atvinnulífið sem getur opnað marga möguleika að námi loknu.“

Gott að búa á Akureyri

Sæþór og Telma kusu að búa á Akureyri og stunda staðarnám við háskólann meðan á náminu stóð. Síðasta misserið bjuggu þau þó heima á Húsavík þar sem þau unnu lokaverkefnin sín í samstarfi við fyrirtæki á svæðinu. „Það er gott að búa á Akureyri. Ég var að spila fótbolta með KA á þessum tíma og eignaðist marga vini, bæði í gegnum skólann og fótboltann,“ segir Sæþór og Telma tekur undir: „Ég er sammála Sæþóri, það var æðislegt að búa á Akureyri.  Þar er allt til alls. Það er einnig skemmtilegt að prófa að breyta um umhverfi, búa á nýjum stað og kynnast nýju fólki. Það gefur manni ótrúlega mikið.“

Lítill og náinn hópur í sjávarútvegsfræði

Sæþór og Telma tala vel um námssamfélagið í HA og hugsa hlýtt til áranna í sjávarútvegsfræðinni: „Við erum sammála um að námssamfélagið hafi verið frábært. Við vorum frekar lítill og náinn hópur stúdenta og höfðum samastað á Borgum, sem er rannsóknarhús á háskólasvæðinu. Það var frábært að geta hitt samnemendur þar á öllum tímum sólarhringsins og geta hjálpast að með námsefnið. Það má alveg segja að við höfum varið meira og minna þessum þremur árum á Borgum í góðum hóp samnemenda okkar,“ útskýrir Telma.

„Sjávarútvegsfræði er skemmtilegt nám sem er bæði krefjandi og fjölbreytt. Námið er sveigjanlegt, sem hentar þeim einstaklingum sem vilja vera í fjarnámi en allir tímar eru teknir upp, fyrir utan það sem er verklegt. Ég mæli þó sjálfur með því að vera í staðnámi ef möguleiki er á því, til þess að fá enn meira út úr náminu og námssamfélaginu í Háskólanum á Akureyri,“ segir Sæþór að lokum.

Áhugasöm geta kynnt sér allt nám við Háskólann á Akureyri á unak.is – umsóknarfrestur er til 5. júní. 

 


Athugasemdir

Nýjast