Sýningin Pennasafnið mitt; Brot af því besta á Hlíð

Susanne Lintermann starfsmaður í félagsstarfi á Hlíð og Dýrleif Bjarnadóttir við opnun sýningarinnar…
Susanne Lintermann starfsmaður í félagsstarfi á Hlíð og Dýrleif Bjarnadóttir við opnun sýningarinnarinnar „Pennasafnið mitt; Brot af því besta“ á Hlíð Myndir Ásta Júlía á facebook síðu Heilsuverndar

 

Dýrleif Bjarnadóttir, fyrrum píanókennari um árabil við Tónlistarskólann á Akureyri og íbúi á Hlíð, opnaði nýverið einkasýninguna: Pennasafnið mitt ,,Brot af því besta." Þar er að finna penna alls staðar að úr heiminum og á hver og einn þeirra sína sögu sem hægt er að lesa um. Dýrleif hóf pennasöfnun ung að árum og eru elstu pennar safnsins orðnir ansi gamlir. Hún byrjaði á að geyma alla óvejulegu pennana sem henni áskotnuðust og einnig þá sem bjuggu til minningar. Pennarnir skipta hundruðum og eru hvaðanæva úr heiminum.

Dýrleif safnaði pennum sjálf en fékk þá einnig frá vinum og vandamönnum sem vissu af áhugamáli hennar. Þeir kipptu gjarnan með sér pennum á ferðalögum vítt og breitt um heiminn og gáfu henni í safnið. Tengdasonur hennar er til dæmis háskólakennari og ferðast víða milli háskóla Hann hefur komið með penna til hennar frá öllum heimsálfunum. Bróðir hennar í Reykjavík hafði líka krukku á borðinu hjá sér sem fjölskylda hans setti penna í fyrir hana. Margir hugsuðu til hennar og vissu af safninu.

 Vasaljós og sápukúlur

Flokkarnir eru nokkrir. Uppistaðan eru fyrirtæki og menntastofnanir hér á landi og erlendis. Sem dæmi má nefna nokkrar gerðir penna frá Landsbankanum. Þar á meðal er veglegur penni sem hún fékk sendan í pósti sem bæði er penni og vasaljós. Annar óvenjulegur penni er KEA sápukúlupenni.  Safn Dýrleifar segir þannig vissa sögu samfélagsins, þar má finna penna frá fyrirtækjum sem störfuðu á Akureyri í eina tíð, eru ekki lengur til eða starfsemin hefur breyst.  Dýrmætasti penninn í safninu er handsmíðaður penni úr snákaviði. Hann gerði Finnbogi Unnsteinn Gunnlaugsson hagleikssmiður í Grindavík.

Örn Ingi Gíslason  eiginmaður Dýrleifar, sá grein um pennasmíði Finnboga í blaði og pantaði penna hjá honum fyrir konuna sína.

Þetta vatt upp á sig

„Eitt leiddi af öðru og þessi skoðun á pennasafni Dýrleifar vatt það mikið upp á sig að úr varð þessi sýning,“ segir Susanne Lintermann sem vinnur í félagsstarfinu á Heilsuvernd Hjúkrunarheimilum. Hún segir að Dýrleif hafi um skeið búið á Hlíð og að um þessar mundir sé verið að selja hús hennar. Börnin hafi komið með eitt og annað og sýnt henni og borið undir hana hvað eigi að gera við hlutina, þar á meðal pennasafnið.

„Við vorum að fara yfir pennana, handleika þá og hún að segja mér sögurnar í kringum hvern og einn. Þetta var mjög áhugavert og skemmtilegt og áður en við vissum af vorum við í óða önn að útbúa sýningu hér á Hlíð svo fleiri gætu skoðað og haft gaman af,“ segir Susanne.

Hæfileikaríkir einstaklingar sem fá að njóta sín

Hún segir að á Hlíð sé unnið eftir Eden hugmyndafræðinni sem m.a. gangi út á að virkja íbúana eftir getu. „Við kappkostum að fólk hafi eitthvað fyrir stafni, að það hafi tilgang í lífinu og geri hluti sem því þykja skemmtilegir.  Það er mikilvægt að allir fái að njóta sín, íbúarnir búa yfir svo margvíslegum hæfileikum. Þetta er heimili en ekki geymslustaður og við gerum hvað við getum til að halda fólki í virkni, að  það finni tilgang með lífinu og geri eitthvað sem gefur því lit. Þessi hugmyndafræði er fléttuð inn í allt okkar daglega líf. Fólk hættir ekki að vera til þó það flytji á hjúkrunarheimili og við bendum ávallt á að þetta er heimili, ekki stofnun og íbúunum leyfist því að setja sinn svip á heimilið,“ segir Susanne.

Hún segir að Dýrleif hafi tekið þátt í öllu ferlinu við sýninguna, valið inn penna, lagt til sögur með þeim sem og annað sem til þarf til að koma upp fallegri sýningu. „Alúð og natni skín í gegnum allt hennar verk,“ segir Susanne. Augljóst hafi verið að sýningin hafi fallið gestum vel í geð, þeir voru fjölmargir og skemmtu sér konunglega.

Sjón er sögu ríkari,áhugasamir eru hvattir til að leggja leið sína á Hlíð og skoðað það sem fyrir augu ber.

Fjölmargir lögðu leið sína á opnun pennasýningarinnar og höfðu gaman af

Athugasemdir

Nýjast