Svona er staðan á bólusetningu á Norðurlandi

Heilsugæslustöðin á Akureyri.
Heilsugæslustöðin á Akureyri.

Bólusetningu á hjúkrunarheimilum á Norðurlandi eystra er lokið og bólusetning á sambýlum, dagdvölum og heimahjúkrun er langt komin. Þetta kemur fram á vef HSN.

Byrjað var að bólusetja íbúa 80 ára og eldri sem ekki eru með þjónustu þó það sé skammt á veg komið. Um helmingur allra íbúa 80 ára og eldri hafa nú þegar fengið fyrri bólusetningu en stærsti hluti þess hóps er á hjúkrunar- og dvalarheimilum.

Bólusetning á heilbrigðisstarfsmönnum í framlínu sem sinna bráðaþjónustu er einnig langt komin, búið er að bólusetja sjúkraflutningamenn og þá starfsmenn sem sinna sýnatökum vegna Covid.

Gert er ráð fyrir að bólusetja útkallslögreglumenn í næstu sendingu ásamt því að ljúka bólusetningu sem eftir er í fyrstu forgangshópum. Eldri borgarar eru næstir í forgangsröð og verður haldið áfram að bólusetja íbúa í þeim hópi eftir því sem bóluefni berst. Vonir standa til að í lok mars verði búið að bólusetja alla eldri en 70 ára.

Í apríl og maí, ef áætlanir um komu bóluefnis ganga eftir, er stefnt að bólusetningu næstu forgangshópa. Einstaklingar eldri en 60 ára, yngra fólk með ákveðnar sjúkdómsgreiningar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn.  

Forgangshópar vegna sjúkdóma þeirra sem eru yngri en 60 ára byggjast á greiningum í sjúkraskrárkerfum heilsugæslu og landspítala. Eftir á að raða einstaklingum innan sjúkdómaflokka. 

Einstaklingar munu fá rafrænt boð í bólusetningu. Ef það fer framhjá viðkomandi verður haft samband eftir öðrum leiðum. Það verður líka auglýst á www.hsn.is og Facebooksíðu HSN hvaða aldurshóp er verið að bólusetja hverju sinni.

 


Athugasemdir

Nýjast