Tvær nýjar sýningar verða opnaðar á Listasafninu á Akureyri á laugardag, 31. janúar kl. 15 á fjórðu hæð safnsins. Þetta eru fyrstu sýningaropnanir ársins 2026. . Annars vegar er um að ræða sýningu Guðmundar Ármanns - Aðflæði, og hins vegar sýningu Bjarkar Viggósdóttur - Hreyfingu fyrir sjón.
Aðflæði
Guðmundur Ármann (f. 1944) á að baki langan feril í myndlist og myndlistarkennslu. Aðflæði er yfirlitssýning á 65 ára ferli Guðmundar og er elsta myndin frá 1970. Sýningin einkennist af fjölbreyttri leit listamannsins að túlkunarformi – frá raunsæi til abstrakts – þar sem mótífið hverfur smám saman uns eftir stendur einungis línan, formið og liturinn. Tvívíð myndlist – málverk, grafík og teikningar, eru í aðalhlutverki, en einnig má sjá nokkur þrívíð verk úr velktum viðarbútum sem rak á fjörurnar.

Haustrigning, verk eftir Guðmund Ármann
Guðmundur flutti til Akureyrar árið 1972 og hefur starfað sem myndlistarkennari, kláraði kennararéttindanám við Háskólann á Akureyri 2002 og lauk MEd-prófi í menntunarfræðum frá sama skóla 2013.
Hreyfing fyrir sjón
Björk Viggósdóttir fæddist á Akureyri 1982. Björk skapar gagnvirkar upplifunarinnsetningar, þar sem eldri tækni blandast nútímatækni í myndlist. Listaverkin eru oft hlaðin táknmyndum og til dæmis sett saman úr fjölbreyttum efnivið. Björk nýtir gjarnan marga miðla í innsetningunum, t.d. myndbandshljóð og skúlptúr. Innsetningarnar mynda samhljóm milli efna og tækni í sjónrænni upplifun og kalla fram sterka skynjun í sýningarrýminu. Myndmálið er oft túlkað þannig að leikið er með öll skynfæri áhorfandans.
Björk lauk BA-námi í myndlist 2006 frá Listaháskóla Íslands, stundaði meistaranám í hagnýtri menningarmiðlun við Háskóla Íslands og lauk námi í listkennslufræðum við Listaháskóla Íslands 2021.