Alveg einn - Nýtt lag með tónlistartvíeykinu Villa & Dandra

Tónlistartvíeykið Villi og Dandri
Tónlistartvíeykið Villi og Dandri

Í dag, föstudaginn 30.01.26, kom út lagið Alveg Einn með tónlistartvíeykinu Villa & Dandra.

Lagið fjallar á ljúfsáran hátt um einmannaleikan sem er allsráðandi í samfélaginu og á kosmískum skala. Lagið er vegalag sem gerist í geimnum, en það sækir innblástur til meistara Magnúsar Eiríkssonar í lög eins og Einbúann og Óbyggðirnar kalla, en blandar þeim innblæstri saman við erlenda strauma eins og frá Moonage Daydream með David Bowie og Rocket Man með Elton John. Úr verður glettin og grátbrosleg tilraun til þess að finna sig og tilganginn í stóra samhengi hlutana og svara spurningunni um hvort maður sé í raun og veru alveg einn.

Frumsýna tónlistarmyndband og bjóða í teiti

Samhliða útgáfu lagsins á streymisveitum frumsýna þeir félagarnir tónlistarmyndband við lagið. Sindri Swan leikstýrði myndbandinu af stakri snilld og stóiskri ró, en rétt eins og í laginu er flækst víða, en reyndar á Akureyri, sem er að vísu líka í geimnum. Afraksturinn er gráglettinn og stílhreinn og skemmtileg viðbót við heim lagsins.

Í tilefni af útgáfu lags og myndbands verður boðið til útgáfuhófs á Leyni á Akureyri í dag, föstudag, kl 16:30.

Myndbandið má finna hér:

https://youtu.be/fSSoPEaDanM

Fyrsta lagið af Söngvum meðaljónsins

Um er að ræða fyrsta lagið á komandi plötu Villa og Dandra sem ber heitið Söngvar Meðaljónsins, þar sem þeir rýna í sálarangist íslenskra meðaljóna á kómískan en ljúfan hátt. Villi & Dandri eru þeir Daníel Andri Eggertsson, Dandri, sem hefur komið víða við sem gítarleikari og vakið mikla athygli með Færibandinu, auk þess að spila í ólíkum og metnaðarfullum verkefnum á borð við Atla og Showguilt. Villi er svo Vilhjálmur B. Bragason, en hann er Grímuverðlauna leikari sem hefur einnig látið að sér kveða í tónlistinni, t.a.m. sem annar helmingur Vandræðaskálda.

Frá þessu segir í tilkynningu frá útgefendum

Nýjast