Guðmundur Karl segir að veturinn hafi „gengið upp og niður," eins og hann orðar það. Meira var opið í fyrravetur og veðrið þá yfirleitt með ágætum, en nú í vetur hefur oft og tíðum verið vindasamt sem gerir að verkum að ekki er hægt að hafa lyftur opnar. „Aðsóknin þá daga sem opið hefur verið bætir það upp," segir Guðmundur. Metaðsókn var í Hlíðarfjall árið 2010 og hafa sjaldan eða aldrei jafnmargir gestir verið þar á ferðinni og þá. „Veturinn er auðvitað ekki búinn, það eru enn margir og vonandi góðir dagar, eftir, en mér sýnist að við séum á pari við árið 2009. Aðsóknin í vetur er álíka mikil og var þá," segir Guðmundur. „Ég er þokkalega ánægður með veturinn í heild."
Guðmundur Karl er bjartsýnn á að framundan séu góðir páskar og að fjölmenni verði að venju á skíðum í Hlíðarfjalli. Spár gera ráð fyrir snjókomu um komandi helgi og segir forstöðumaðurinn það koma sér vel fyrir unnendur skíðaíþróttarinnar og þá sem vilja stunda aðra útivist í Hlíðarfjalli um páskana.