Svínaflensan orðin að faraldri á Akureyri

Svínaflensan er orðin að faraldri á Akureyri. Þetta staðfestir Þórir V. Þórisson, sóttvarnalæknir í Eyjafirði í samtali við RÚV. Hann áætlar að flensan nái hámarki innan þriggja til fjögurra vikna og hún gangi yfir á sex til átta vikum.  

Um liðna helgi var maður sem hafði veikst af svínaflensu lagður inn á Sjúkrahúsið á Akureyri með lungnabólgu. Veikindi grunnskólanemenda hafa aukist síðustu daga - einkum eru áberandi fjarvistir nemenda í Oddeyrarskóla og Síðuskóla á Akureyri. Svo virðist sem flensan hafi ekki gert vart við sig að marki á öðrum stöðum á Norðurlandi, segir á vef RÚV.

Fyrstu skammtarnir af bóluefni gegn svínaflensu eru væntanlegir til Sjúkrahússins á Akureyri í næstu viku. Byrjað verður að bólusetja heilbrigðisstarfsfólk og þá sem eru veikir fyrir.

Nýjast