Eftir að innanríkisráðuneytið staðfesti nýjar samþykktir fyrir sveitarfélagið Norðurþing, þá verður bæjarstjórn Norðurþings aftur orðin sveitarstjórn og þar með bæjarstjóri Norðurþings sveitarstjóri á ný. Á síðasta kjörtímabili hafði sveitarstjórn verið breytt í bæjarstjórn og Bergur Elías, fyrrum titlaður sveitarstjóri varð bæjarstjóri. Þetta vakti nokkra óánægju, ekki síst í dreifbýli í Norðurþingi, t.d. komu athugasemdir bæði úr Kelduhverfi og Reykjahverfi þar sem mönnum þótti sérkennilegt að einhver bæjarstjóri væri þar orðinn þeirra æðsta stjórnvald. Þess vegna m.a. ákvað nýkjörin sveitarstjórn eftir síðustu kosningar að breyta titlum til fyrra horfs og það hefur tekið tímann sinn.
„Hinsvegar settum við inn í nýju samþykktirnar nú nokkuð athyglisverða klausu, þar sem segir að sveitarstjóri geti komið fram fyrir þéttbýliskjarna sem bæjarstjóri. Til dæmis í tengslum við vinabæjarsamskipti Húsavíkur, svo sem á Álaborgarleikunum, en Álaborg er vinabær Húsavíkur en ekki Norðurþings.“ Segir Friðrik Sigurðsson, forseti sveitarstjórnar, áður bæjarstjórnar.
Friðrik segir að menn hafi verið að velta því fyrir sér hvort ef t.d. væri búið að sameina öll sveitarfélög á Norðurlandi, hvort enginn gæti þar með komið fram sem bæjarstjóri Akureyrar, það hafi veri sú hugsun sem að baki þessu ákvæði bjó.
„Þeir í ráðuneytinu skildu í fyrstu ekki þessa klausu sem við vildum koma inn, en áttuðu sig á því eftir að Kristján Þór, stundum bæjarstjóri Húsavíkur, hafði útskýrt málið.“ JS