Sveitarstjóri Norðurþings lækkar laun sín tímabundið

Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings. Mynd/epe
Kristján Þór Magnússon sveitarstjóri Norðurþings. Mynd/epe

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri Norðurþings lagði fram tillögu á byggðarráðsfundi í gær um að lækka laun sín um 6 prósent frá og með 1. janúar á næsta ári. Með því spari sveitarfélagið um 1,3 milljónir króna. Jafnframt var lagt til að laun kjörinna fulltrúa og nefndarmanna lækki um 6 prósent sem yrði hagræðing upp á 3,6 milljónir. Þá verður launahækkunum æðstu stjórnenda Norðurþings sem taka áttu gildi um áramót, seinkað til 1. júlí á næsta ári

Kristján Þór Magnússon, sveitarstjóri lagði fram minnisblað þar sem kom fram að erfiðleikar í rekstri sveitarfélaga vegna heimsfaraldursins séu óumdeildir og að Norðurþing sé engin undantekning í þeim efnum. Útkomuspá fyrir fjárhagsárið 2020 bendir til þess að Norðurþing skili umtalsverðum hallarekstri og sömuleiðis á árinu 2021.

Með það að markmiði að halda í störf og auka ekki á atvinnuleysisvandann í sveitarfélaginu og þar með hættuna á brottflutningi fólks, er engu að síður mikilvægt að grípa til hagræðingaraðgerða alls staðar þar sem því verður við komið.

„Byggðarráð leggur til að kjör kjörinna fulltrúa og nefndamanna lækki frá 1. janúar 2021 til þeirrar fjárhæðar sem launin námu við upphaf kjörtímabilsins, þ.e. stuðst verður við viðmiðunarfjárhæð þingfararkaups frá þeim tíma við útreikning launa. Um er að ræða liðlega 6% lækkun, við það sparist kostnaður vegna starfa sveitarstjórnar, ráða og nefnda (þ.m.t. hverfisráða), sem nemur um 3,6 mkr. Lækkunin gildir út árið 2021.

Sveitarstjóri leggur til að laun sveitarstjóra Norðurþings lækki um sama hlutfall eða 6% frá 1. janúar 2021. Sú skerðing er hagræðing uppá liðlega 1,3 mkr að meðtöldum launatengdum gjöldum. Lækkunin gildir út árið 2021.

Jafnframt leggur sveitarstjóri til, að höfðu samráði við æðstu stjórnendur, að samningsbundnum launahækkunum þeirra í janúar 2021 verði seinkað til 1. júlí 2021. Slíkt samkomulag við æðstu stjórnendur nemur hagræðingu uppá u.þ.b. 2,7 mkr með launatengdum gjöldum.

Tillögu byggðarráðs um breytingu á kjörum kjörinna fulltrúa er vísað til sveitarstjórnar.
Byggðarráð samþykkir tillögu sveitarstjóra um lækkun á kjörum sveitarstjóra og seinkun launahækkana æðstu stjórnenda sveitarfélagsins,“ segir í bókun Byggðarráðs.

Fréttin hefur verið uppfærð: Upphaflega var því haldið fram að sveitarstjóri sjálfur hefði lagt fram tillöguna um að lækka laun sín en það rétta er að tillagan kom frá Byggðarráði í heild.

Fréttin hefur verið uppfærð: Upphaflega fréttin var rétt og hefur verið uppfærð í samræmi við það.

 


Athugasemdir

Nýjast