Sveitarfélög, standið við gefin loforð!

Björn Snæbjörnsson.
Björn Snæbjörnsson.

Sveitarfélög landsins eru um þessar mundir að kynna fjárhagsáætlanir fyrir næsta ár, þar sem ýmsar gjaldskrár og álögur eru ákveðnar.

Í tengslum við gerð lífskjarasamninganna í vor gaf Samband íslenskra sveitarfélaga út yfirlýsingu, þar sem því var lofað að sambandið mæltist til þess við sveitarfélögin að hækkun gjalda yrði ekki meiri en 2,5%.

Orðrétt segir:

,,Til að stuðla að verðstöðugleika mun Samband íslenskra sveitarfélaga mælast til þess við sveitarfélögin að þau hækki ekki gjaldskrár sínar á árinu 2019 umfram það sem þegar er komið til framkvæmda. Einnig mun sambandið mælast til þess við sveitarfélögin að á árinu 2020 muni gjöld á þeirra vegum hækka um 2,5% að hámarki, en minna ef verðbólga er lægri.“

Launþegar ætlast að sjálfsögðu til þess að sveitarfélögin taki tillit til þessara tilmæla, enda er það óþolandi að þær kjarabætur sem samið var um í vor séu teknar af launafólki með hækkunum sveitarfélaganna, nánast korteri eftir undirskrift samninga. 

Langur listi

Á síðustu vikum hafa borist fréttir af hækkunum á einstökum gjaldskrám sveitarfélaga, jafnvel á um annan tug prósenta og um verulegar hækkanir á leigukjörum í félagslegu húsnæði.

Sveitarfélögin reka margvíslega samfélagsþjónustu og innheimta gjöld fyrir  veitta þjónustu. Ég nefni til dæmis leikskólagjöld, aðgang að sundlaugum og íþróttahúsum, sorphirðugjöld, gjöld fyrir frístundaheimili og skólamáltíðir.

Þessi upptalning er aðeins brot af miklu lengri lista.

Fasteignagjöld

Húsnæðisvandi þeirra tekjulægstu er gríðarlegur. Ríkið og sveitarfélög verða að styðja við fólk sem vill eignast húsnæði og stórbæta verður réttarstöðu þeirra sem leigja húsnæði.

Fasteignagjöld hafa hækkað verulega á undanförnum árum og þótt sum sveitarfélög hafi lækkað álagningarhlutfallið vegur það alls ekki upp á móti hækkun á fasteignamati.

Fasteignagjöldin eru í flestum tilvikum reiknuð út sem hlutfall af fasteignamati og breytingar á fasteignamati næsta árs hafa legið fyrir í nokkurn tíma.

Sveitarfélögin ákveða svo álagningarhlutfallið, væntanlega í fjárhagsáætlunum sínum. Í fjölmörgum sveitarfélögum hækka þessi gjöld mikið að óbreyttu, til dæmis um tæp tíu prósent á Akureyri. Ef bærinn vill sýna ábyrgð, er einfaldast að lækka álagningarhlutfallið  og standa þannig við gefin fyrirheit. Málið er í raun og veru ekki mjög flókið.

Hækkanir verða ekki liðnar

Launþegar munu fylgjast náið með gjaldskrárbreytingum sveitarfélaganna, sem  margar hverjar taka gildi um áramótin. Það verður ekki liðið að sveitarfélögin taki þær launahækkanir af launþegum  sem samið var um, með því að hækka gjaldskrár með einu pennastriki. 

Ég segi því við stjórnendur sveitarfélaga: Standið með ykkar fólki og efnið gefin loforð. 

-Björn Snæbjörnsson er formaður Starfsgreinasambands Íslands og Einingar-Iðju

 

 

 


Athugasemdir

Nýjast