Svefnleysi unglinga er vandi foreldra ekki skólans

Helga Dögg Sverrisdóttir
Helga Dögg Sverrisdóttir

Helga Dögg Sverrisdóttir skrifar

Menn keppast við að benda skólum landsins á að gott ráð sé að seinka byrjun skóladags. Ástæðan er að unglingarnir þurfi að sofa lengur. Rétt eins og þá leysist vandinn. Sumir skólar eltast við þetta, aðrir ekki.

Sjálf hef ég ekki mikla trú á því úrræði. Ég tel að regla og skipulag heima fyrir um svefntíma sé úrræði sem virkar best. Festa foreldra og ákvörðun þeirra um svefntímann. Nú styttist í upphaf skólabyrjunar og því lag að taka á málunum, fyrir alla aldurshópa.

Embætti landlæknis gaf út skýrslu ,,Vitundarvakning um mikilvægi svefns til að stuðla að bættum svefni Íslendinga“ og er margt áhugavert þar. Greinin byggir að mestu leyti á skýrslunni og fræðsluerindi um svefnvenjur ungmenna á vefsíðu SÍBS. Krækjur á heimildirnar er að finna neðst.

Svefn og unglingar

Í skýrslu Landlæknis segir, ,,Ungmenni eru líklegri til að vaka lengur á kvöldin og eiga þ.a.l. stundum í erfiðleikum með að vakna á morgnanna og eru líklegri til að upplifa dagþreytu. Flestar rannsóknir sýna að þetta er oft til komið út af sálfélagslegum þáttum (streita, andúð, þunglyndi, vonleysi) en einnig líffræðilegum þáttum. Seinkun á melatónín framleiðslu og lenging dægurklukkunnar á sér stað á unglingsárum og gerir þeim erfiðara fyrir að sofna og vakna snemma.”

Skiptir máli hvort unglingur fari að sofa kl. 23:00 og vakni kl. 07:00 eða sofni á miðnætti og vakni 08:00. Má velta því fyrir sér. Sami klukkustundafjöldi og svefnþörfinni fullnægt.

Af hverju seinka þá skólar upphafi skóladags? Í þerri von að unglingar mæti betur sofnir og úthvíldir kl. 08:30 eða 09:00. Í því samhengi þarf að skoða hvenær unglingurinn fer að sofa. Unglingur sem mætir klukkan níu í skólann og fer að sofa kl. 01:00 hefur ekki fengið meiri eða betri svefn en sá sem sofnar kl. 23:00 og vaknar kl. 07:00. Það sem skiptir höfuðmáli er regla. Um það hafa foreldrar mest að segja. Svefntími unglinga hefur styst í gegnum tíðina sem er slæmt, þar stendur hnífurinn í kúnni.

Vandinn er ekki klukkan hvað unglingar fara að sofa og vakna heldur hve mikinn svefn þeir fá. Við höfum okkar líkamsklukku og stillum hana sjálf að eigin þörfum.

Til hvers sofum við

Svefn er ekki eitthvað sem við gerum af því bara. Svefn er okkur nauðsynlegur til að byggja upp þrek fyrir næsta vinnudag. Halda andlegri og líkamlegri heilsu í lagi. Fyrir börn og unglinga skiptir svefn miklu máli. Heilinn er ekki ósvipaður gemsanum, þarf að hlaða þegar rafhlaðan tæmist. Svefninn er hleðslan fyrir heilann.

Á vef SÍBS segir ,, Svefninn okkar er afar mikilvægur því í daglegu lífi er stöðugt áreiti og mikið magn upplýsinga sem heilinn þarf að vinna úr. Meðan við erum vakandi myndast því úrgangsefni/ þreyta sem við verðum að losa okkur við eða koma úr líkamanum. Þessi ruslatæming á sér stað fyrst og fremst þegar við hvílum okkur og svefn er því mikilvægur fyrir velferð, vöxt og þroska. Það er því staðreynd að nægur og góður svefn er þýðingarmikill fyrir heilsu og vellíðan. Svefnvenjur okkar ákvarðast fyrst og fremst af líkamsklukkunni, hversu lengi við erum vakandi, venjum og svefnhegðun.”

Of lítill svefn hefur í för með sér margvíslegan heilsufarsvanda fyrir unglinga, það ættu foreldrar að hafa í huga þegar þeir láta af stjórninni.

Til mikils er að vinna að taka svefnvenjur unglinga föstum tökum. Kæru foreldrar því fyrr því betra. Fræðið börn ykkar um mikilvægi svefns og afleiðingar af of litlum svefn og svefnleysi.

Við skulum skoða þessa þætti örlítið betur. Vitað er að svefnleysi hefur áhrif á líkamlega og andlega heilsu unglinga. Margar rannsóknir hafa verið gerðar sem styðja það, án þess að þeirra verði getið hér.

Í fræðsluerindi SÍBS segir að ,, Afleiðingar svefnleysis eru margvíslegar og hafa veruleg áhrif á líkamlega jafnt sem andlega heilsu. Rannsóknir hafa meðal annars fundið tengsl á milli þess að sofa ekki nóg og: sjálfsvígshættu, offitu, hjarta- og æðasjúkdóma, þunglyndis, ofvirkni og athyglisbrests, skapsveifla, lágra einkunna og glæpahneigðar.” Unglingar sem fá nægan svefn er andstaða við þetta.

Lesa má í fræðsluerindinu ,,Ungmenni sem hafa góðar svefnvenjur og sofa nægilega mikið eru líklegri til þess að borða hollari mat og hreyfa sig frekar, takast betur á við streitu, vera með sterkara ónæmiskerfi, vera hamingjusamari, einbeittari og með betra minni en ungmenni sem fá ófullnægjandi svefn.”

Til mikils að vinna ekki satt!

Líkamsklukka

Melatóninframleiðslan fer fram í heilaköngli sem seytlar efninu út og veldur að okkur syfjar. Framleiðslan er að kvöldi til og framan af nóttu. Síðan dregur úr henni. Melatónin hjálpar okkur við að stilla líkamsklukkuna. Því miður hefur ólöglegur innflutningur á Melatónini aukist hér á landi. Börnum og unglingum er gefið lyfið, án samráðs við lækni, þegar svefnleysi gerir vart við sig. Með markvissri þjálfun er hægt að snúa svefnvenjum við án lyfjatöku.

Öll höfum við okkar líkamsklukku. Unglingar eru vísir með að lengja sína með því að fara seinna að sofa og vakna seinna. Nú hafa nokkrir skólar brugðið á það ráð að hjálpa unglingum við það með því að hefja skóladaginn síðar.

Embætti landlæknis orðar það svo ,, Niðurstöður fjölþjóðlegrar rannsóknar á vegum Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar sýndi fram á að íslensk ungmenni fara mun seinna að sofa en evrópskir jafnaldrar þeirra þó þau þurfi að vakna á sama tíma í skóla og sofa þar af leiðandi minna.” Af hverju?

Í skýrslunni kemur fram að um 43% unglinga sofa 7 tíma eða minna á dag. Tölur úr íslenskum rannsóknum á svefni barna í 8. – 10. bekk sýna það. Svefnþörf unglinga er 8-10 tímar á hverjum degi. Fram kom í skýrslunni að ,, Önnur innlend rannsókn greindi frá því að meðal svefntími 15 ára ungmenna væri aðeins um 6 klukkustundir á nóttu, á virkum dögum.”

Skjánotkun hefur áhrif á svefn

Enginn er undanskilin þeim vanda að skjátæki taka mikinn tíma frá börnum og unglingum. Margir foreldrar taka ekki slaginn og láta börnin sjálfráð um hve langan tíma þeir nota fyrir framan skjá. Það kemur illa niður á svefni unglinga að foreldrar ráði ekki för og stoppi skjánotkun seint á kvöldin. Slíkt hefur áhrif á svefn.

Í fræðsluerindi SÍBS kemur fram að ,,Fjölmargar rannsóknir hafa sýnt að þegar framleiðsla melatóníns fer úr skorðum eða raskast þá hefur það neikvæð áhrif á líkamsklukkuna okkar, því að meginhlutverk melatóníns er að fínstilla hana. Allar raskanir og truflanir á þessum hormónum geta haft veruleg áhrif á svefn og gæði svefns, bæði þegar hugsað er til skemmri og/eða lengri tíma. Í þessu sambandi má nefna að rannsóknir hafa sýnt fram á að birta og ljós skjámiðla (tölvur, iPad, sjónvarp, snjalltæki) geta haft bein áhrif á líkamsklukkuna okkar. Ástæðan er sú að birtan úr snjalltækinu (bláa ljósið) hefur örvandi áhrif á kortisól og líkaminn heldur því áfram að losa kortisól. Þetta er sérstaklega bagalegt snemma kvölds eða í undirbúningi okkar fyrir svefninn því örvandi framleiðsla kortisóls ýtir undir seinkun á losun melatóníns sem hefur þá bein áhrif á svefninn okkar og hindrar að við náum að sofna. Þessi hegðun getur leitt til alvarlegra svefn vandamála, meðal annars hjá ungmennum.”

Gef embætti Landlæknis orðið sem tekur í sama streg, ,,Einnig hefur verið greint frá neikvæðum áhrifum skjánotkunar. Ljósið frá tækjunum getur dregið úr framleiðslu á melatónín haft áhrif á svefn ungmenna ásamt örvuninni og truflun sem fylgir skjánotkun.”

Ábyrgðin er foreldranna

Foreldrar stjórna hvenær börn þeirra fara að sofa. Þau stjórna líka hvað tæki eru í svefnherbergi þeirra þegar þau fara að sofa. Mikilvægt er að skapa venju í svefnmálum barna og unglinga til að þau hafi nægt þrek og skapsmuni til að takast á við dagleg verkefni.

Regla er lykilatriði. Fara að sofa á sama tíma dag hvern og vakna á sama tíma. Hafa snjalltæki ekki í návist fyrir svefn eða á meðan sofið er.

Í skýrslu Landlæknis eru lagðar til ýmsar leiðir til að vekja athygli þjóðarinnar á langvarandi svefnleysi landans og sérstaklega barna og ungmenna. Ekki ráð nema í tíma sé tekið.

Það verður ekki tekið frá foreldrum að þeir bera ábyrgð á að barn þess fái nægan svefn. Enginn tekur þá ábyrgð frá þeim. Hafi foreldrar góðar reglur um svefnvenju barnsins er ávinningurinn margfaldur. Alveg þess virði að taka slaginn.

Ábyrgðin er foreldra ekki skólanna.

Helga Dögg Sverrisdóttir, grunnskólakennari

Heimildir:

Embætti landslæknis. (2021). Vitundarvakning um mikilvægi svefns til að stuðla að bættum svefni Íslendinga. Sótt 22. júlí á Vitundarvakning um mikilvaegi svefns til að baeta svefn Islendinga.pdf (landlaeknir.is)

Erlingur Jóhannsson og Rún Sif Stefánsdóttir. (2019). Svefnvenjur ungmenna. Reykjavík: SÍBS. Sótt 23. júlí af Svefnvenjur ungmenna - SÍBS vefur (sibs.is)

 


Athugasemdir

Nýjast