Verkfall kennara við framhaldsskóla landsins hófst í dag, þar sem ekki tókst að semja um nýjan kjarasamning. Lena Birgisdóttir náms- og starfsráðgjafi við Menntaskólann á Akureyri segir að nemendur hafi áhyggjur af stöðu mála. Nemendurnir tala mikið um þetta og óttast að geta ekki klárað veturinn, eins og stefnt hefur verið að til þessa. Þetta á sérstaklega við um útskriftarnemendur skólans, sem er eðlilegt.Ég hvet nemendur til að halda sér við námsefnið, eins og kostur er. Stundum þurfa nemendurnir aðstoð kennara, ýmislegt er þó hægt að gera utan skólastofunnar. Ég hvet líka til bjartsýni, það er mikilvægt að láta svartsýnina ekki ná yfirhöndinni. Bókasafnið verður opið og það er um að gera að nýta sér aðstöðuna og þjónustuna þar. En þetta fer auðvitað allt eftir því hve lengi verkfallið stendur og málin þróast, segir Lena Birgisdóttir.