Svar við dónaskap

Sóley Björk Stefánsdóttir.
Sóley Björk Stefánsdóttir.

Í síðustu viku las ég hér á síðum Vikudags afskaplega dónalega grein eftir Hjörleif nokkurn Hallgríms. Greinin er í sjálfri sér tæplega svaraverð en vegna þess að höfundur ákvað að draga mitt nafn inn í skrifin finn ég mig knúna til að svara. Svona skrif, að kalla fólk aumingja og öðrum uppnefnum, dæma sig sjálf og ég hugsa að karlrembuleg ummæli um hversu lengi konur geti eða geti ekki haldið kjafti séu lóð á vogarskálar okkar femínista um mikilvægi breytinga í samfélaginu frekar en að þjóna þeim tilgangi sem höfundur hefur líklega ímyndað sér að þau gerðu.

Það að grenja upp að um einelti sé að ræða þegar Hjörleifur er, í ljósi fjárhagslegra hagsmuna, ósammála skipulagsráði og meirihluta bæjarstjórnar er auðvitað fyrir neðan allar hellur og fullkomin vanvirðing við hvern einasta þolanda eineltis.  

Ég vil þó gjarnan nýta tækifærið og ítreka gagnrýni mína á þá stefnu núverandi meirihluta að bærinn sé fyrst og fremst skipulagður með það að markmiði að aldrei sé þrengt að einkabílnum, alveg óháð því hverjar þarfir fólks um stærð íbúða eru.

Við þurfum fyrst og fremst að horfa til fjölbreyttra lífstílsþarfa íbúa. Sum kjósa að eiga einkabíl en önnur kjósa aðra ferðamáta. Sum kjósa að búa í stórum íbúðum en önnur kjósa minni íbúðir. 

Það er ekki auðvelt að spá fyrir um framtíðina. Við vitum það eitt að hún verður öðruvísi en nútíminn og við gerum einfaldlega okkar besta til að sjá hana fyrir okkur. Ég er alveg sannfærð um að eftir því sem samskipti færast meira yfir á rafrænt form þurfum við enn frekar á því að halda að vera í návist hvers annars, og einmitt þess vegna, eigum við ekki að skipuleggja bæinn okkar út frá þörfum bílanna heldur þörfum manneskjunnar og mannlífsins.

Ég og Hjörleifur Hallgríms deilum ekki framtíðarsýn. En stundum er fólk sammála um aðgerðir þrátt fyrir að vera ósammála um markmiðið og það gerðist hjá okkur tveimur í síðustu viku.

Við þurfum öll að muna að standa ekki þegjandi hjá þegar verið er að koma illa fram við annað fólk og ég get ekki annað en fordæmt þau rætnu skrif sem birtust hér á þessum síðum gagnvart fólki sem ég veit að starfar af fullum heilindum við að bæta samfélagið sitt, jafnvel þó við séum oft ósammála um leiðirnar því markmiðið er það sama!

-Höfundur er bæjarfulltrúi VG


Athugasemdir

Nýjast