Svanhildur Daníelsdóttir stofnaði Teppahóp Svönu um þarft samfélagsverkefni

Svanhildur Daníelsdóttir með teppin góðu.  Myndir MÞÞ
Svanhildur Daníelsdóttir með teppin góðu. Myndir MÞÞ

„Ég er hræð yfir þessum góðu viðtökum,“ segir Svanhildur Daníelsdóttir sem í vetur stofnaði Teppahóp Svönu á facebook í því skyni að fá fleiri til liðs við sig við að hekla eða prjóna ungbarnateppi fyrir sængurkonur í neyð.

Svanhildur segir að hugmyndin hafi kviknað eitt kvöldið yfir sjónvarpsfréttum þar sem sagt var frá fæðandi konum á flótta sem ættu ekki neitt fyrir sig og barn sitt og komu fram áhyggjur ljósmæðra yfir þeirri döpru stöðu. Hún segir að um sé að ræða konur bæði frá Úkraínu og annars staðar frá í heiminum en einnig væru til konur hér á landi sem hefðu lítið sem ekkert bakland og skorti margt.

„Mér fannst þetta svo nöturleg staða að vera í að ég ákvað strax að byrja að hekla teppi og gefa áfram. Sú hugmynd flaug ofan í kollinn á mér að það gæti verið að fleiri vildu leggja þessu málefni lið þannig að ég varpaði henni fram í færslu á facebook. Það stóð heldur betur ekki á mínum vinahóp,“ segir hún en yfir 50 konur skráðu sig í hópinn. „Þessi viðbrögð fóru fram úr mínum björtustu vonum, ég átti von á að kannski 10 konur myndu slást í hópinn en þessi mikla þátttaka kom mér ánægjulega á óvart.“

Skemmtilegt og gefandi

Svanhildur segir að hún hafi sett inn uppskriftir af tveimur teppum ef þátttakendur vildu nýta sér þær. Öllum var frjálst að gera það sem hugur þeirra stóð helst til. „Þetta var bara til leiðbeiningar og innan um og saman við voru dugmiklar og flinkar hannyrðakonur sem öllu eru vanar. Við spjölluðum saman í hópnum og skiptumst á skoðunum, þannig að þetta var skemmtilegt og gefandi,“ segir hún.

Svanhildur afhenti teppin nýverið á skrifstofu Ljósmæðrafélags Íslands í Reykjavík og kom til baka með innilegt þakklæti og hlýjar kveðjur.  Alls gaf hún 57 ungbarnateppi frá hópnum eftir 43 konur, en þær afkastamestu gerðu fleiri en eitt teppi. Þá fóru með húfur, vettlingar og hosur fyrir nýbura með í kössunum sem farið var með suður yfir heiðar.


Athugasemdir

Nýjast