Sundurlyndi, óöryggi og vantraust einkenna þjóðarsálina

Fjöldi fólks tók þátt í kröfugöngu á Akureyri í dag á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks, 1. maí.
Fjöldi fólks tók þátt í kröfugöngu á Akureyri í dag á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks, 1. maí.

Fjöldi fólks tók þátt í kröfugöngu sem stéttarfélögin á Akureyri stóðu fyrir í dag 1. maí, á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks. Gengið var frá Alþýðuhúsinu, gegnum miðbæinn og að Hofi, þar sem fram fór dagskrá í tilefni dagsins. Húsfyllir var í Hofi, þar sem Úlfhildur Rögnvaldsdóttir formaður FVSA flutti ávarp 1. maí nefndar stéttarfélaganna og Stefán Einar Stefánsson formaður LÍV flutti aðalræðu dagsins. Auk þess var boðið upp á skemmtiatriði, happdrætti og kaffiveitingar. Úlfhildur minntist þess í ávarpi sínu að hundrað ár eru síðan íslenskar verkakonur fóru fyrst í verkfall, þeim fannst óréttlátt að fá 15 aura á tímann í fiskverkun þegar karlar höfðu 30 aura fyrir sömu vinnu. “Í áratugi höfum við haft lög í landinu sem kveða á um sömu laun fyrir sömu vinnu og fyrir jafnverðmæt störf. En lög duga skammt ef ekki er farið eftir þeim. Óþolandi er að enn þann dag í dag skuli vinnuframlag kvenna ekki vera metið í launum til jafns við karlastörf.”

Úlfhildur sagði jafnframt að undanfarin þrjú ár hefðum við búið við erfiðleika í kjölfar hrunsins haustið 2008. “Flestir töldu þá að við yrðum búin að ná vopnum okkar nú á þessum tíma. Því miður er ekki svo. Atvinnuleysi er yfir 7 % á landsvísu, verðbólga er enn allt of mikil, aðgerðir stjórnvalda til stuðnings skuldugum heimilum hafa allt of fáum hjálpað, frá síðustu kjarasamningum hefur orðið kaupmáttarrýrnun hjá stórum hópi launþega og enn streymir fólk úr landi sem sættir sig ekki við þau lífskjör sem hér eru í boði,” sagði Úlfhildur. Hún sagði að þótt margar þjóðir búi við meira atvinnuleysi megum við Íslendingar aldrei sætta okkur við slíkt. “Unga fólkið okkar á skilið að fá störf, vel launuð störf. Lágmarkslaunin þurfa að hækka verulega miðað við atvinnuleysisbætur. Hvað varð um framfærsluviðmiðið? Það virðist hafa fallið í gleymskunnar dá á mjög skömmum tíma. Menntakerfið þarf að vera vakandi yfir þörfum atvinnulífsins á hverjum tíma og bregðast við þeim í skólastarfinu.”

“Kjörorð dagsins dag eru Vinna er velferð og það er hverju orði sannara,” sagði Úlfhildur. “En hvernig stendur á því að við sem þjóð skulum ekki ná því að koma hjólum atvinnulífsins á skrið og fjölgað störfum? Landið okkar er ríkt af auðlindum til lands og sjávar, þjóðin er vel menntuð og hugrökk, en það er eins og við getum ekki komið okkur saman um hvernig við stígum skrefin til framfara. Ráðamenn þjóðarinnar verða að teygja sig til samstöðu við landsmenn um mikilvæg mál svo sem fiskveiðistjórnunarkerfið og rammaáætlun um orkunýtingu.

Sundurlyndi, óöryggi og vantraust einkenna þjóðarsálina. Því ástandi verður að linna. Enginn vafi er á því eð við munum vinna okkur út úr kreppuástandinu, en það virðist ætla að taka okkur allt of langan tíma. Við verðum að hætta að kynda undir sundrungu og snúa bökum saman því öll stefnum við að sama marki, að ná okkur upp úr öldudalnum og gera samfélagið betra og réttlátara.

Við verðum að kalla fram það besta í fari hvers annars, taka tillit til og treysta hvert öðru. Við verðum líka hvert og eitt að líta gagnrýnum augum í eigin barm, við verðum að geta gefið eftir af okkar ýtrustu kröfum til þess að ná að mynda samstæða heild sem sameiginlega vinnur af alhug til að styrkja hverja þá einingu sem gagn getur gert. Stéttarfélögin eru sá vettvangur sem stendur okkur næst í þessu tilliti. Þau starfa þvert á stjórnmálaöfl og trúfélög og þeim ber að standa vörð um áunnin réttindi og sækja fram fyrir hönd félagsmanna sinna,” sagði Úlfhildur.

 

 

Nýjast