Sundalaugargestum fjölgað fyrstu tvo mánuði ársins

Gestum Sundlaugar Akureyrar hefur fjölgað umtalsvert fyrstu tvö mánuði ársins, miðað við sömu mánuði í fyrra og árið 2008. Þá hafa tekjur Sundlaugarinnar aukist um 5% fyrstu tvo mánuði ársins, miðað við sömu mánuði í fyrra, þrátt fyrir að frítt sé í sund fyrir börn frá síðustu áramótum.  

Ólafur Jónsson formaður íþróttaráðs segir að fjölgunin nemi um 15% á milli ára. Fyrstu tvö mánuði þessa komu 39.400 gestir í Sundlaug Akureyrar en sömu mánuði í fyrra voru gestirnir 33.500 og 29.400 fyrstu tvo mánuði ársins 2008. Ólafur segir að börnum hafi fjölgað um 25-30% í janúar og febrúar sl. miðað við síðasta ár og fullorðnu fólki, eldri borgurum og öryrkjum hafi jafnframt verið að fjölga.

"Ég hafði ekki búist við þessari miklu fjölgun og var frekar að horfa til sumarsins. Þetta hefur að sama skapi aukið álag á starfsfólkið," sagði Ólafur.  Hann segir að verið sé að skoða lausnir varðandi skápa í klefunum, þar sem börnin, sem ekki þurfa að greiða aðgang, vilja fara strax í sund án þess að gera vart við sig í afgreiðslunni. Í framtíðinni sé svo horft til þess að koma upp aðgangsstýringu eins og er í nýrri laugum. Þá fari gestir í gegnum hlið, sem þá nýtist líka þeim sem eru t.d. með árskort, sem þurfa þá ekki að koma við í afgreiðslunni.

Nýjast