Sumartónleikar hefjast í Akureyrarkirkju í 25. sinn á sunnudag
"Tónleikarnir skipa mikilvægan sess í menningarlífi Akureyrar og hafa Akureyringar og ferðamenn, innlendir og erlendir, notið góðrar tónlistar og vandaðs flutnings frábærra listamanna í kirkjunni. Aðsókn að tónleikunum hefur aukist jafnt og þétt undanfarin ár og að venju er fjölbreytni í fyrirrúmi og mismunandi tónlistarstefnur ríkja á hverjum tónleikum," segir Sigrún Magna Þórsteinsdóttir organisti í Akureyrarkirkju og framkvæmdastjóri Sumartónleikanna.
Á fyrstu tónleikunum leikur Kári Allansson á hið hljómfagra orgel Akureyrarkirkju, sem á 50 ára vígsluafmæli í ár. Kári, sem lauk burtfararprófi í orgelleik frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar fyrir mánuði síðan, er í gríðarlega góðu spilaformi og munu áheyrendur heyra mörg glæsileg stykki leikin með höndum og fótum. Þann 10. júlí syngur Kammerkór Norðurlands skemmtilega blöndu af íslenskum þjóðlögum og nýjum kórverkum, undir stjórn Guðmundar Óla Gunnarssonar. Guðmundur Óli hefur einnig útsett þjóðlögin sem flutt verða.
Á þriðju tónleikunum, þann 17. júlí munu Hulda Björk Garðarsdóttir, sópran, og Eyþór Ingi Jónsson, organisti við Akureyrarkirkju og bæjarlistamaður Akureyrar 2011-2012 flytja norræn sönglög. Fjórðu tónleikarnir, 24. júlí, verða óvenjulegir en þá munu Margrét Brynjarsdóttir og Gísli Jóhann Grétarsson flytja óperuperlur sem Gísli hefur útsett fyrir sópran og gítar. Einnig munu þau flytja frumsamin lög Gísla en hann hefur nýlokið meistaranámi í tónsmíðum við Tónlistarháskólann í Piteå í Svíþjóð.
Lokatónleikar tónleikaraðarinnar verða um verslunarmannahelgina en þá munu frábærar listakonur heimsækja Akureyri. Það eru þær Guðrún Ingimarsdóttir, Sigrún Eðvaldsdóttir og Anna Guðný Guðmundsdóttir og munu þær flytja efnisskrá fyrir sópran, fiðlu og píanó. Ítarlegri upplýsingar má finna á slóðinni : http://www.akureyrarkirkja.is/page/sumartonleikar.