Stólalyftan, Fjarkinn, í Hlíðarfjalli ofan Akureyrar verður opin frá 9. júlí til 30. ágúst í sumar. Á vef Hlíðarfjalls segir að þar sé góð aðstaða til útivistar bæði fyrir hjóla- og göngufólk. Hægt er að taka hjólið með sér í lyftuna og gangandi geta tekið lyftuna bæði upp og niður og þá fyrir sama verð.
Fjórar hjólabrautir eru í fjallinu og svo eru þrjár aðrar, tvær frá gönguhúsi og ein frá lyftuskúr við Fjarkann sem allar liggja yfir í Glerárdal.
„Fyrir gangandi er tilvalið að stoppa við Strýtuskála og njóta útsýnis yfir Akureyrabæ og Eyjafjörð. Frá Strýtuskála er svo merkt gönguleið upp á brún Hlíðarfjalls.“