Stytting hringvegarins - hagsmunamál allra landsmanna

Signý Sigurðardóttir skrifar

Flutningasvið SVÞ hefur ítrekað reynt að vekja máls á þeim mikilvæga málaflokki sem samgöngur í landinu eru. Stytting vegalengda á milli helstu staða bætir samkeppnisstöðu atvinnulífs innanlands og eykur hagkvæmni og þægindi hins almenna vegfaranda.

Í kynningarbæklingi um núgildandi samgönguáætlun segir m.a. að stuðlað skuli að styttri ferðatíma með vegbótum svo sem styttingum. Þrátt fyrir þetta skýra markmið er lögum í landinu þannig fyrirkomið að engin trygging er fyrir því að mögulegar styttingar á grunnnetinu komi fyrir sjónir almennings. Fyrir liggur að mögulegt er að stytta hringveg númer 1 um 20 kílómetra á milli Reykjavíkur og Akureyrar. Þessi stytting næðist fram með nýjum vegstæðum í gegnum A-Húnavatnssýslu og Skagafjörð.

Sveitarfélögin á svæðinu ákvarða aðalskipulag innan marka sinna sveitarfélaga og hafa með því móti getað stýrt því að ný vegstæði hafa ekki komið til álita. Í síðustu viku ítrekuðu sveitarfélögin afstöðu sína og mótmæltu harðlega veikburða tilraunum ríkisvaldsins um tillögur að nýjum vegstæðum á svæðinu.

Í ályktun Blönduósbæjar um tillögu Vegagerðarinnar um nýtt vegstæði er sagt „að tillagan sé til þess fallin að vekja úlfúð hjá íbúum Austur Húnavatnssýslu". Þá segir ennfremur að „tillaga Vegagerðarinnar feli það í sér að færa Blönduósbæ úr alfaraleið". Ályktun bæjarins má lesa á vefsíðu Húna http://www.huni.is/.

Skipulags- og byggingarnefnd Skagafjarðar harmar þá afstöðu Skipulagsstofnunar að leggja til við Umhverfisráðherra að fresta skipulagi á því svæði þar sem Vegagerðin hefur gert tillögu um nýtt vegstæði fyrir hringveg númer eitt innan marka sveitarfélagsins. Rökin eru þau sömu og hjá Blönduósbæ að með nýju vegstæði falli Varmahlíð úr alfaraleið. Frétt um álit nefndarinnar má lesa á vefsíðu Feykis http://www.feykir.is/.

Af ályktunum Blönduósbæjar og Skipulags- og bygginganefndar Skagafjarðar má augljóslega ráða að að þeirra áliti er hringvegur númer 1 þeirra einkamál og kemur öðrum landsmönnum ekki við. Að mati flutningasviðs SVÞ er það eitt brýnasta viðfangsefni stjórnvalda í þessum málaflokki að fá þessu kerfi breytt. Hringvegur númer eitt er fráleitt einkamál einstakra sveitarfélaga. Hagsmunir heildarinnar í samgöngum landsins hljóta að eiga að koma upp á yfirborðið í máli eins og þessu. Samgöngukerfi landsins ræður miklu um samkeppnishæfni innanlands til framtíðar. Ákvarðanataka þar sem hagsmunir heildarinnar komast ekki að verður að linna.

Stjórnvöld þurfa að sýna pólitískan kjark og brjóta upp það kerfi sem hér hefur verið komið á. Flutningasvið SVÞ skorar á stjórnvöld að sýna þennan pólitíska kjark í verki.

Höfundur er forstöðumaður flutningasviðs SVÞ - Samtaka verslunar og þjónustu.

Nýjast