Tillagan er á þá leið að niðurgreiðsluupphæð taki mið af lengd vistunartíma sem foreldrar kaupa í daggæslu, að hámarki 7 tíma daglega (var 8 tíma daglega) og að niðurgreitt verði fyrir börn hjóna eða sambúðarfólks frá 12 mánaða aldri (var 9 mánaða aldri). Gert er ráð fyrir að þessi breyting taki gildi frá og með 15. nóvember 2009 og því verði þjónustusamningum við dagforeldra og foreldra sagt upp frá og með 15. október 2009, segir í bókun skólanefndar. Ennfremur kemur þar fram að nefndin hafi þurft að lækka kostnað við málaflokkinn Fræðslu- og uppeldismál mikið á þessu ári og hefur m.a. verið gripið til þess að stytta þjónustutíma í leikskólum og frístund í grunnskólum frá hausti. Útgjöld vegna niðurgreiðslna á þjónustu dagforeldra stefnir í að fara um kr. 10.000.000 fram úr áætluðum kostnaði sem er kr. 70.050.000. Skólanefnd hefur því miður ekki svigrúm til að mæta þessari kostnaðaraukningu og samþykkir því fyrirliggjandi tillögu fyrir sitt leyti sem felur í sér styttingu á niðurgreiddum þjónustutíma, segir bókun nefndarinnar.