Styrkja viðburði Akureyrarvöku

Landsbankinn hefur úthlutað styrkjum til tíu verkefna og viðburða á Akureyrarvöku en samtals voru veittar 400 þúsund krónur til verkefnanna. Styrkveitingin er hluti af samstarfi Akureyrarstofu og Landsbankans sem hefur verið bakhjarl Akureyrarvöku um árabil. Markmiðið með styrkjunum er að veita hóflega styrki til einstaklinga og hópa sem munu skipuleggja fjölbreytta og áhugaverða viðburði við Ráðhústorg og á göngugötunni á Akureyrarvöku. Fjárstuðningur Landsbankans vegna Akureyrarvöku rennur því beint til listamanna og hópa sem koma fram á Akureyrarvöku.
Þetta er í fyrsta sinn sem Landsbankinn og Akureyrarstofa standa að styrkveitingunni en í úthlutunarnefnd sátu fulltrúar frá Akureyrarstofu og Landsbankanum. Akureyrarvaka er árleg bæjarhátíð og verður haldin dagana 29.-31. ágúst. Þemað er að þessu sinni AL-menning fyrir almenning þar sem enn meiri áhersla verður lögð á að fá íbúa til að taka þátt og njóta. Vísindasetrið, Draugaslóðin í Innbænum, Rökkurró, líflegt Listagil og tónlist munu spila stórt hlutverk í hátíðinni ásamt mörgum öðrum viðburðum.