Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar (AFE) stendur þessa dagana fyrir kynningarátaki um styrki til nýsköpunar og þróunar. AFE hefur með höndum framkvæmd Vaxtarsamnings Eyjafjarðar, en þar er nú kallað eftir umsóknum til verkefna sem líkleg eru til að efla nýsköpun og samkeppnishæfni atvinnulífs á Eyjafjarðarsvæðinu. Styrkhæf verkefni eru rannsóknar- þróunar- og nýsköpunarverkefni sem markvisst stefna að markaðssetningu nýrrar eða endurbættrar vöru eða þjónustu. Verkefni skulu vera unnin í samstarfi að lágmarki þriggja aðila. Umsóknir skulu berast fyrir 1. júní.
AFE, í samstarfi við Nýsköpunarmiðstöð Íslands og Tækniþróunarsjóð boða til kynningarfundar um styrki til þróunar- og nýsköpunarverkefna. Fundurinn fer fram þriðjudaginn 15. maí á Hótel Kea, kl. 12-13. Fundurinn er ætlaður forsvarsmönnum fyrirtækja, frumkvöðlum og öðrum áhugasömum um nýsköpun og eflingu atvinnulífs á Eyjafjarðarsvæðinu. Á fundinum kynnir Elín Aradóttir kynnir styrki úr Vaxtarsamningi Eyjafjarðar, Guðmundur Óli Hilmisson kynnir styrki á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Björn Víkingur Ágústsson kynnir styrki á vegum Tækniþróunarsjóðs. Á eftir verða fyrirspurnir og umræður. Aðgangur ókeypis.
Umsóknareyðublað og frekari upplýsingar, m.a. um styrkhæfan kostnað, forsendur og verklag styrkveitinga, má nálgast á www.afe.is/is/vaxey, eða hjá Elínu Aradóttur verkefnastjóra í síma 460 5701, elin@afe.is.
Vaxtarsamningur Eyjafjarðar er samningur milli iðnaðarráðuneytisins og Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar. Núgildandi samningur var undirritaður í lok febrúar 2012 og gildir fyrir árin 2012 og 2013.